19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það virðist vera tilgangslítið að vera að ræða þessi mál. Það er auðsætt, að hv. þingmeirihluti ætlar sér alls ekki að ræða þau. Hann hefir sýnilega tekið þá afstöðu til þessara frv. um einkasölufargan og ríkisrekstur allskonar, sem hv. meiri hl. fjhn. hefir sérstaklega tekið að sér að bera fram, að þau skuli fram, hvað sem öllum rökum líður. Ég verð að segja, að það er furðuleg framkoma hv. meiri hl. í því máli, sem verið var að afgr. til 3. umr. hér áðan (frv. um breyt. á l. um einkasölu á áfengi). Þegar fram komu rökstudd mótmæli atvinnurekenda í landinu gegn því, að gengið væri þannig á þeirra rétt sem frv. gerir ráð fyrir, þá situr hv. meiri hl. steinþegjandi og mælir ekki eitt einasta orð gegn þeim rökum.

Um það frv., sem nú liggur fyrir, er svipað að segja. Hæstv. stj. gerir ekki minnstu grein fyrir, hvaða tekjuvonir sé af því að hafa. Það er sagt, að frv. sé borið fram til þess að afla tekna, en ekki gerð nein tilraun til að færa líkur að því, að tekjur verði einhverjar af því, og því síður hvað miklar. Það liggur nú raunar í hlutarins eðli, að af einokun er alltaf hægt að hafa einhverjar tekjur. En þó er það svo, að fyrir því eru takmörk, hvað mikið fé er hægt að knýja út á þann hátt. Frá því að vera lögleg getur verzlunin breytzt og orðið meira og minna ólögleg. Það er ekki vafi á því, að ef á að fara að selja þá vöru, sem hér er um að ræða, afarháu verði, þá færist verzlunin á ólöglegan grundvöll. Það er hægt að smygla feiknum af vindlingapappír inn í landið, eins og eftirlitinu er háttað hér, og það getur hver sagt sér sjálfur, ef á að fara að selja þá vöru mjög háu verði, hvort verzlunin með hana muni ekki færast yfir á ólöglegan grundvöll.

Ég veit, að það þýðir ekki að ræða þetta mál á þeim grundvelli, að með því sé verið að spilla fyrir einstaklingsrekstri í landinu. Það liggur í augum uppi, að þegar taka á verzlunina með vöru, sem meira og minna er notuð sem luksusvara, úr höndum einstaklinganna, þá er þar með atvinnurekstri þeirra stórkostlega spillt. En það gerir meira að verkum. Það stuðlar að því, að verðlag á nauðsynjavörum, sem þessum einstaklingum er áfram leyft að verzla með, hlýtur að hækka, því að tekjurnar, sem einstaklingsreksturinn hafði af þessum ónauðsynlegu vörum, verður hann að fá á einhvern annan hátt. Rekstrarkostnaður verzlananna minnkar hverfandi lítið, þó þær hætti að hafa þessar vörur á boðstólum. Sá hluti rekstrarkostnaðarins, sem þær báru uppi, hlýtur því að lenda á þeim vörum, sem eftir eru, nauðsynlegu vörunum, og þær verða dýrari. Þannig er með þessum ráðstöfunum beinlínis unnið að því að auka dýrtíðina í landinu og erfiðleika almennings. Þess vegna er þessi stefna, sem hv. þingmeirihluti hefir tekið upp, ekki aðeins stórskaðleg fyrir kaupmannastéttina og aðra atvinnurekendur, heldur engu síður allan almenning í landinu.

Ég þykist svo vita, að það þyki skipta litlu máli, hvort ég held hér lengri eða skemmri ræðu, þar sem ekki er tekið tillit til neinna raka hvort sem er, og læt ég því staðar numið.