19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Sigurður Kristjánsson:

Það er ekki líkt því, að maður sé hér að tala við menn, sem hafa einhverja hugmynd um þau mál, sem hér á að ráða til lykta. Mér alveg blöskraði það áðan, að þegar sýnt hafði verið fram á, að rök þau, sem stjórnarsinnar færa fyrir frv. um allstórvægilegt mál, eru ekki annað en villa, byggð á vanþekkingu, sem hverjum venjulegum manni utan þings mundi þykja smán að því að vera fundinn sekur um, þá hafa þeir ekki meiri sóma að gæta en það, að enginn þeirra stendur upp til að afsaka þetta sem misskilning, hvað þá til þess að reyna að sýna fram á, að ásökunin sé röng. Ég veit, að það er mjög leiðinlegt að tala yfir þannig að því er virðist gersamlega meðvitundarlausum mönnum um það, hvað sé rétt og hvað rangt. En af því að ég og aðrir stjórnarandstæðingar höfum skyldur gagnvart okkar kjósendum, þó stend ég hér upp, til þess að láta standa eftir mótmæli af minni hendi gegn þeim firrum, sem hér er verið að fara með viðvíkjandi atvinnurekstri í landinu.

Það er ekki stórvægilegt frv., sem liggur hér fyrir nú, og það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. og stjórnarstyðjanda, að það er í rauninni ósköp einfalt mál. Þó virðist það ekki sérstaklega einfalt í augum hv. stjórnarsinna, því eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, hafa þeir ekki treyst sér til að gera svo mikið sem áætlun um, hvað miklar tekjur frv. mundi gefa handa ríkissjóði. Það má því víst vera mjög einfalt mál til þess að þessir hv. þm. geti greitt úr því á þann hátt, að þeir sýni fram á, hvað vinnst með því, til þess það geti vegið salt móti því, sem sýnt er fram á, að tapast við það.

Ég get ekki látið hjá líða að draga menn hér dálítið í dilka. Það er vitanlegt, að sú deild sósíalista hér, sem kallar sig Alþfl., er hinn eiginlegi húsbóndi á rauða stjórnarheimilinu. Ég get ekki verið mjög harðorður í garð þeirra, sem kalla sig framsóknarmenn, því þeir virðast nú vera allánauðugir hvað afstöðu til mála snertir. En hafa þessir hv. þm., sem húsbóndavaldið virðast hafa, gert sér grein fyrir því, hvernig framkoma þeirra er gagnvart því fólki, sem veitt hefir þeim brautargengi inn í þennan sal? Það eru flest tekjulitlir menn við sjávarsíðuna, sem til þess hafa verið flekaðir. En öll sú viðleitni, sem fram hefir komið hjá þessum húsbændum á rauða heimilinu, hefir gengið í þá átt að gera þessu fólki erfiðara að lifa en ella mundi, bæði með því að draga undan almenningi atvinnurekstur og rýra atvinnuvonir hans, og þó sérstaklega með því að stofna til hækkandi verðlags á nauðsynjavörum. Það getur verið, að mönnum með miklar tekjur geri ekki mikið til, hvort eldspýtur eru 5 eða 10 aurum dýrari, en það gerir þeim til, sem svo eru staddir, að þeir geta ekki keypt nema einn stokk í einu. Ég efast ekki um, að þeim, sem græða tugi þús. árlega á olíuverzlun, eða sem hafa há föst laun við ríkisstofnanir, eða sem jafnvel hafa sjálfir fengið einkasölu á einhverju, sem áður var frjálst, sé sama, hvort þeir kaupa nauðsynjavörur 10% dýrari eða ódýrari. Þeim þykir e. t. v. gaman að því að kaupa dýrt, af því þeir geta ekki sýnt á sér höfðingsbrag með öðru heldur en að slá um sig með óhófseyðslu. En ég get fullyrt, að kjósendum þeirra þykir það ekkert gaman. Þeim þykir áreiðanlega ekkert gaman að ganga heim með hálfan málsverð handa fjölskyldu sinni vegna uppsprengds verðlags.

Það má halda í þá átt að sýna fram á, hvað þessir húsbændur á rauða heimilinu eru trúverðugir við þá, sem hafa fengið þeim umboð sitt. Ég veit ekki betur en tekjur bæjarfélaganna byggist mest á tekjum af atvinnurekstri. Og nú er það svo, að ríkisstofnanir, samvinnufélög og fleiri slík fyrirtæki, sem náðar njóta fyrir augum þessara húsbænda á rauða heimilinu, þau eru að meira og minna leyti undanþegin gjöldum til sveitar og bæjarsjóða. Svo er sífellt verið að krefjast framlags af sveitarfélögunum til þess að halda lífi í fátæka fólkinu, sem ekki hefir þá sterku aðstöðu að geta grætt á ríkiseinkasölum. Ég veit ekki, hvernig þessir herrar ætla að forsvara það að draga atvinnureksturinn meir og meir frá einstaklingunum og rýra þar með tekjur bæjar- og sveitarsjóða og getu þeirra til þess að rétta bágstadda fólkinu hjálparhönd, sem ég ætla, að flest sé af þeim hluta þjóðarinnar, sem glæpzt hefir til að kjósa þessa menn. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er 2. umr. og því æskilegt, að menn haldi sér við málið sjálft). Þetta eru líka almennar umr. um frv. sem einkasölumál, og ég hefi ekkert farið út í einstök atriði. (Forseti: Það er einmitt það, sem á að gera við 2. umr., að halda sér við einstakar greinar frv.). Ég veit ekki annað en mönnum sé frjálst að tala um málin í heild, hvaða umr. sem er, nema þá um brtt. sé að ræða. En ef forseti álítur eitthvað í þessu máli undanskilið þessum umr., þá vil ég fá að heyra það. Ég veit ekki til, að svo sé. Annars var ég nú búinn að segja það, sem ég þurfti, og er líklega réttast að vera ekki að ergja hæstv. forseta með því að fara lengra út í þetta mál. Ég veit að hann hefir ekki sérstakar skyldur við kaupstaðarkjördæmin eða fátæka fólkið þar, en ég vildi beina þessum orðum sérstaklega til þeirra, sem þykjast berjast fyrir því að opna lífsmöguleika alþýðu manna, en virðast aðallega stunda það hér á Alþingi að gera fólki erfiðara fyrir að lifa heldur en ella mundi.