19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

0874Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það hefir verið kvartað hér um, að ekki fáist umr. um mál eins og þetta. Ég er að sjálfsögðu fús að ræða við þá, sem mæla á móti frv., og hafði ekki gefið tilefni til að ætla annað.

Ég vil gefa þær upplýsingar að gefnu tilefni, að ríkisstj. gerir ráð fyrir, að hafa megi af þessari einkasölu um 40 þús. kr. tekjur árlega, án þess að hækka þurfi útsöluverð á eldspýtum. Er það vitanlega með því móti, að heildsöluálagningin verði eitthvað meiri heldur en verið hefir, en dregið sé úr smásöluálagningunni, sem á þessari vöru mun oft vera upp undir 100% eins og nú standa sakir.

Þessi aðferð til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð að hafa ríkiseinkasölur, veldur auðvitað því, að þá sparast aðrir skattar fyrir skattþegnana, sem ella hefði orðið að leggja á. Því ef þessar 40 þús., sem stj. hyggst að fá með þessari einkasölu, fást ekki þannig, þá þarf vitanlega að jafna halla fjárl. með einhverjum öðrum tekjum. Það er öllum kunnugt, að það vantar fé til þess að jafna með halla fjárl., og það mun enginn flokkur fær um að gera till. um svo miklar niðurfærslur ríkisútgjaldanna, að ekki þurfi samt töluverða tekjuöflun á þessu þingi.

Þessi tekjuöflunaraðferð, að taka einkasölu á vörutegundum, sem vel þykja til þess fallnar, er alls ekkert einkennandi fyrir stefnu sósíalista. Í þeim löndum, sem nú hafa einkasölu á eldspýtum, og þau eru mörg, hefir henni verið komið á af „konservativum“ flokkum í fleiri tilfellum heldur en af jafnaðarmönnum. Svo þetta frv. er ekkert tilefni til þess að kalla alla stuðningsmenn stj. sósíalista, án þess ég vilji gefa í skyn, að menn þurfi að kveinka sér sérstaklega undan slíku.

Það stendur svo á, að ríkið rekur fyrirtæki, tóbakseinkasöluna, sem getur tekið að sér eldspýtnaeinkasöluna án verulegs aukakostnaðar, svo að þessar tekjur mundu nást inn með minni innheimtukostnaði heldur en flestir aðrir skattar, sem hugsanlegt væri að grípa til.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta. Almennra hugleiðinga um ríkiseinkasölur og frjálsa verzlun finnst mér ekki að svona smáfrv. gefi tilefni til.