19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Ég hefi notað líkinguna um strauminn vegna þess, að ég á við hreyfingu og breytingu, og ég álít, að það þurfi sjón til að hreyfast, eða a. m. k. meiri sjón en til þess að standa kyrr. Líking þessi var nú útfærð af hv. 3. m. Reykv. eftir orðinu, og það er náttúrlega hættulegt fyrir mig að nota þetta orð. Það er rangt hjá hv. þm., að það hafi verið ég, sem fyrst sagði orðið um vindinn; það var miklu meiri maður okkur báðum, sem sagði þau fyrst. Hv. þm. gaf hér átakanlega lýsingu af ástandinu í heiminum. Hann lýsti því, að allir væru að brölta við að gera allt annað en þeir vildu gera eða teldu rétt að gera. Sannleikurinn er sá, að þær viðskiptareglur, sem gilt hafa undanfarnar aldir, eru hættar að „fungera“, gallar samkeppnisskipulagsins eru vaxnir kostunum yfir höfuð, og þá verða menn að reyna að finna eitthvað annað betra. Hv. þm. þarf ekki að segja mér það, að stórþjóðirnar geri þær ráðstafanir, sem þær gera, vegna annars en þess, að þær eru sannfærðar um, að það er betra en ástandið, sem ríkir. Það er eins og Roosevelt forseti sagði: Ef sú aðferð, sem er reynd, heppnast ekki, þá er ekki annað en reyna annað betra. Og það er einmitt þetta, sem er gert. Þá átti straumur tímans að stranda á einu heljarmiklu skeri, sem heitir Stauning, og það er náttúrlega erfitt að komast framhjá þeim mikla manni. En ég skil orð Staunings á þann hátt, að hann noti orðið einstaklingsframtak ekki á sama hátt og hér er gert í pólitíkinni, sem slagorð af vissum flokki. En ef við athugum nú, hvað Stauning hefir gert, þá hefir hann sett sterkari gjaldeyris og innflutningshömlur en þekkjast annarsstaðar. Hefir hann ekki sett skipulag á sölu landbúnaðarafurða innanlands og utan, sem ýmsir segja, að skerði einstaklingsfrelsið? En ég og Stauning segjum, að þetta geri það ekki, heldur sé þetta gert til þess, að einstaklingurinn fái að njóta sín. Sannleikurinn er sá, að þegar skipulagið eldist, verða gallarnir of áberandi, og þá þarf að gera nýjar stórfelldar ráðstafanir. það er straumur tímans.