02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frumvarp felur í sér samþykkt á bráðabirgðalögum, sem gefin voru út 26. september síðastliðinn, þar sem bann var lagt við því, að flytja úr landi síldarmjöl án leyfis stj. Árangurinn af þeim lögum hefir orðið sá, að allt, sem þá var til í landinu af síldarmjöli, eða um 1000 smálestir, hefir verið kyrrsett, að undanteknum h. u. b. 100 smálestum af saltsíldarmjöli.

Orsökin til þessarar ráðstöfunar er kunnari en svo, að um þurfi að ræða. Hún er hinn mikli heybrestur um meira en hálft landið. Með því, að kyrrsetja í landinu þetta mikla, góða, innlenda fóður, er sú ráðstöfun gerð, sem flotið verður á, ef á annað borð verður flotið eftir vandræðin í sumar og í þeim harðindum, sem helzt sýnist vera að vænta í vetur.

Tveir nm. voru fjarverandi sökum lasleika, er frv. var tekið fyrir, en meiri hl. mælir með því, og þykist ég mega fullyrða, að þeir tveir, sem voru fjarverandi, séu því einnig samþykkir.