14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Thor Thors:

Ég vil benda hv. þm. Barð. á það, að ekki hefir komið nein kvörtun frá sjálfstæðismönnum yfir því, að bráðabirgðal. um bönn við útflutningi á síldarmjöli voru gefin út, enda þótt þetta bann hafi valdið talsverðu tjóni í einstöku tilfellum. Ég get ekki betur séð en það sé í betra samræmi við eðli málsins að banna þetta með bráðabirgðalögum heldur en almennum lögum, þegar brýn nauðsyn er fyrir hendi.

Það mætti spyrja hv. þm. Barð., hvort honum þætti ekki eðlilegast að setja í eitt skipti fyrir öll l. um það, að ráðh. mætti banna hvað sem vera vill hér á landi án þess að setja um það bráðabirgðalög. Ef þessi almenna heimild væri gerð að l., væru framleiðendur í raun og veru aldrei frjálsir að því að verzla með sína vöru. Ég tel sjálfsagt, að Alþingi gefi ráðh. aldrei svo víðtæka heimild sem þessa, heldur eigi ákvæði stjskr. að vera hér þær eðlilegu skorður í málinu, enda veit ég, að hv. þm. Barð. skilur það með sjálfum sér, að heimild stjskr. um setningu bráðabirgðalaga nægir hér, og vildi ég því mælast til þess að hv. þd. fari ekki að samþ. hér neitt óþarft bann, sem yrði til þess eins að draga úr öryggi í viðskiptalífinu.