14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Thor Thors:

Mér þykir það einkennileg staðhæfing hjá hv. þm. Barð., að það geti talizt einhver sérstök viðkvæmni, þegar ég stend hér upp til að andmæla algerðum bannlögum á vissu sviði viðskiptalífsins. Hv. þm. Barð. er ekki hlynntur öllum bannlögum, þó hann sé með þessum, og þar sem hann er mjög viðkvæmur fyrir hömlum á einstaklingsfrelsinu á vissu sviði, þá vona ég, að hann skilji, að ég vil ekki leggja óþarfar hömlur á einstaklingsframtakið á því sviði, sem hér er um að ræða.

Út af ræðu hv. 2. þm. N.-M. vil ég gera þessa aths. Þau bráðabirgðalög, sem hér liggja fyrir, voru gefin út vegna sérstaks ástands, sem skapaðist á síðasta hausti, og eru þau lögð fyrir þingið til þess að fullnægja ákvæðum stjskr. og að sjálfsögðu ætlazt til, að þau séu annaðhvort felld eða látin daga uppi, því slíkt er venja um þau bráðabirgðalög, sem aðeins eru miðuð við sérstakt ástand, sem ekki er lengur fyrir hendi. Ríkisstj. er nú búin að eignast allt það síldarmjöl, sem eftir er í landinu, svo að því leyti er tilgangi bráðabirgðalaganna náð. Ég hefi gert ráð fyrir, að þar með væri þetta mál úr sögunni, en ekki yrði farið að setja til frambúðar hömlur á þessu sviði viðskiptalífsins. Þetta vona ég, að hv. 2. þm. N.-M. skilji.