22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Aðalefni brtt. minnar við þetta frv. er, að orðin: „innlendra manna“ falli burt úr frv. Ástæðan fyrir því, að ég ber þessa brtt. fram, er sú, að síðan lög þessi voru sett, hafa komið hingað erlendir hljómlistarmenn, sem okkur er mjög mikilsvert að fá hingað til lands. Hlutur þeirra manna, sem haldið hafa hér hljómleika, hefir stundum verið svo rýr, að það hefir valdið mikilli óánægju þeirra á meðal. Það er talið, að um 18% af brúttótekjum þeirra renni í ríkissjóð. Þeir segja, að hvergi sé eins mikill skattur tekinn af þeim eins og hér. 10% skattur er jafnvel óvenjulegur. Ferðir hingað eru dýrar og erfiðar. Þess vegna er hagnaðurinn af þeim enginn eða a. m. k. mjög lítill. Aftur á móti er mjög mikilsvert, að hingað komi miklir og vel metnir hljómlistarmenn, og að þeir geti verið ánægðir með komuna hingað. Þess vegna má ríkið ekki taka mestan hluta af brúttóhagnaði þeirra. Ríkissjóð munar ekki mikið um þetta. Ég hefi ekki spurzt fyrir um það hjá tollstjóra, hve mikið þetta er. Það mun varla nema meiru en nokkrum hundruðum, í hæsta lagi nokkrum þúsundum króna árlega. Ég álít sjálfsagt að þannig sé komið fram við þessa menn, að það geti orðið landinu til sóma erlendis, en ekki til vansæmdar. Mat útlendinga á okkur Íslendingum hefir mikið að segja.

Ég vona að lokum, að hv. allshn. hafi ekkert við þessa brtt. að athuga og að hún nái fram að ganga.