19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi jafnan verið á móti þessum skatti eins og honum er fyrir komið nú, að hann rennur til þjóðleikhússins. Eins og menn muna, var leyfi til fyrir bæjarfélög að setja á skemmtanaskatt hjá sér, og víðast mun þessi heimild hafa verið notuð, og einmitt í þeim tilgangi að halda við og stofna ýmisskonar mannúðarfyrirtæki. Þannig mun það hafa verið hér í Reykjavík, að tekjurnar hafa gengið til fyrirhugaðrar stofnunar barnaheimilis, og á Ísafirði áttu þær að ganga til rekstrar elliheimilis. Þessi tekjustofn var svo tekinn af bæjarfélögunum, og því miður hefir það gengið svo, að það hefir verið höggið stórlega á tekjustofna bæjarfélaganna, og verður ennþá meira með þeim frv., sem hér liggja fyrir um ýmsar tekjur til handa ríkissjóði. En hér er farið ennþá lengra inn á þá leið að höggva skörð í tekjuöflunarmöguleika bæjarsjóða, því að þar, sem stendur svo á, að bæjarfélögin hafa sjálf bíórekstur, eins og t. d. á Ísafirði, þá er það stórkostleg skerðing á tekjum bæjarfélaganna, því að þegar 80% álagning kemur ofan á þann skatt, sem fyrir er, þá er hann orðinn 35% af inngangseyri í bíóin, og auðsætt er, að þau munu ekki verða eins sótt eins og ella mundi verða. Auk þess er það varhugaverð braut að ganga inn á, að gera slíkar almennar skemmtanir óaðgengilegri og dýrari fyrir allan almenning. Því að vissulega eyða menn frístundum sínum oft og tíðum til þess, sem síður skyldi heldur en að horfa á bíómyndir, sem oft eru fræðandi og skemmtandi. Ég held, að það ætti ekki að leggja stein í götu þess, að almennum ódýrum skemmtunum væri haldið uppi fyrir almenning, meðfram með það fyrir augum, að það mundi leiða til annars, sem er óhollara almenningi heldur en að sækja slíkar skemmtanir. T. d. hefir það verið eitt af þeim ráðum, sem Englendingar telja að beztan árangur hafi borið gagnvart ofnautn áfengis, að halda uppi ódýrum skemmtunum fyrir almenning.

Ég get því ekki, vegna þeirra ástæðna, sem ég hefi talið fram, verið með að samþ. þetta frv., heldur mun ég greiða atkv. á móti því.

Það þýðir auðvitað ekki hér að deila um þjóðleikhúsið; það er mál, sem er orðið afgr. En á sínum tíma var ég einn þeirra manna, sem vöruðu við því að samþ. þau lög um þjóðleikhús, sem nú gilda. Sem betur fer er ekki til þess komið ennþá að starfrækja það hús, en ég hygg, að margir þeirra, sem greiddu atkv. með þeim lögum, sjái nú eftir því, þegar búið er að eyða ½ millj. króna í það. Og vitanlega kostar það ríkissjóðinn árlega tugi eða hundruð þúsunda, þegar farið verður að starfrækja það.

Ég tel fyrir mitt leyti skynsamlegra að halda uppi ódýrum skemmtunum fyrir almenning heldur en að vera að burðast með fyrirtæki eins og þjóðleikhúsið. Þó að þessar tekjur eigi nú sem stendur að renna í ríkissjóðinn, þá verð ég að segja það, að þeirra er mjög illa aflað, því að það er oft svo, að það er fátækara fólkið, sem helzt á kost á að sækja þessar ódýru skemmtanir, en með þessu er verið að þyngja fyrir því, en ekki létta.