19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

17. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Auðunn Jónsson:

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um bíóin sem menningartæki, vil ég minna á, að það er að sjálfsögðu eitt, sem getur bætt úr því, sem ábótavant kann að vera í því efni, og það er, að valdar séu þær myndir, sem hafa menningarlegt gildi og séu jafnframt fræðandi og skemmtandi, og svo í öðru lagi að greina á milli þeirra mynda, sem á að sýna fullorðnu fólki og unglingum.

Hv. 1. þm. Eyf. minntist á, að sumar myndir væru þannig, að unglingar hefðu illt eitt af því að sjá þær. Þetta get ég vel gengið inn á. En við þessu er auðvelt ráð. Það á að greina myndirnar í sundur, og leyfa ekki unglingum að sjá þær myndir, sem að einhverju leyti gætu spillt hugsunarhætti þeirra. En hitt er vitað, að þessi skattur er aukinn skattur á bæjarfélögin bæði beint og óbeint. Beint, þar sem svo stendur á sem ég get um í einu tilfelli, að bæjarfélög hafa tekjur af rekstri kvikmyndahúsa, en að hinu leyti óbeint, með því að taka þennan skatt af inngangseyri í kvikmyndahús til ríkissjóðs og þar með að draga úr greiðslugetu borgaranna til þarfa bæjarfélaganna. Ég tel þess vegna, af öllum þessum ástæðum, sem ég hefi nefnt, varhugavert að samþ. þetta frv. og vil eindregið mælast til, að það verði fellt.