09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

22. mál, verkamannabústaðir

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þótt frv. þetta sé nokkuð að fyrirferð, þá er breyt. á l. um verkamannabústaði ekki að sama skapi mikil. Aðalbreyt. er sú, að í stað þess, að nú er eftir l. ákveðið að byggingarsjóðir séu sjálfstæðir miðað við kaupstað eða kauptún, sem l. ná til, þá er í frv. gert ráð fyrir, að byggingarsjóður skuli einn fyrir allt landið, en skiptist í deildir eftir kaupstöðum og kauptúnum. Ástæðan til þessarar breyt. er í fyrstu lagi sú, að það hefir sýnt sig torvelt fyrir hin smærri kauptún að fá lán til bygginganna og hinn eini sjóður, sem hefir fengið nokkuð verulegt og hafzt nokkuð að, er sjóðurinn í Rvík. Í öðru lagi er með breyt. viðurkennd sú staðreynd, að óheppilegt er, að ríkisábyrgðin sé bundin við mörg lán og smá, þannig að margir séu að bjóða út ríkisábyrgð fyrir smáum upphæðum. Ef breyt. verður samþ., verður lántakandinn aðeins einn, og lánskjör allra félaganna hin sömu, hvar sem þau eru á landinu, og ábyrgðin veitt fyrir hinu sameiginlega láni.

Hinsvegar er gert ráð fyrir, að kaupstaðirnir eða kauptúnin standi ábyrg gagnvart sjóðnum.

Hinar aðrar breyt. eru smávægilegar og leiða af hinum, eins og t. d. stjórn sjóðsins og það, að kaupstaðir eða kauptún geta sett sína trúnaðarmenn til eftirlits með fjárveitingum. En samkv. 4. gr. er ekki gert ráð fyrir, að lán sé veitt nema einu byggingarfélagi í hverjum kaupstað eða kauptúni. Þetta byggist á því, að það er talið sjálfsagt, að einungis sé um eitt félag að ræða á hverjum stað, og uppfylli það skilyrði laganna.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til allshn.