09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

22. mál, verkamannabústaðir

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég sé ekki ástæðu til að víkja nema að tveimur atriðum í ræðu hv. þm. Snæf. Hann var sammála mér um höfuðatriðið, að rétt væri að hafa sjóðstj. eina og deildarskiptingu. Hinsvegar tel hann sig mótfallinn þeirri breyt., að einungis eitt félag sé aðili fyrir hvert kauptún eða hvern kaupstað og taldi það skapa færri mönnum möguleika til hagnýtingar fríðinda þeirra, er l. veita, skildist mér. Ég held þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Engin líkindi eru til þess, þótt félögin séu fleiri, að fjármagn sjóðsins aukist við það, en það er hin fjárhagslega geta sjóðsins, sem ræður því, hve mikið er hægt að lána. Að því er snertir sjóðstj. get ég tekið það fram strax, að mér finnst vel til fallið, að hv. allshn. athugi það atriði. Það er ekkert kappsmál, að ríkisstj. skipi sjóðsstj., en það leiddi af því að sjóðurinn var gerður aðeins einn, að hin eldri ákvæði fengu eigi staðizt. Ég hefi ekki á móti því, að tekið verði tillit til flokkanna og vil gjarnan, að það verði tekið til athugunar.