17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. þetta nái fram að ganga. Þó er hér ein brtt. við frv. frá sjálfstæðismönnunum í nefndinni, sem þeir að sjálfsögðu munu gera grein fyrir. Ég mun aðeins í stuttu máli skýra frá því, í hverju þær breyt. eru fólgnar, sem n. ber fram á þskj. 78. sem eru fæstar miklar að efni til. Brtt. við 2. gr. er aðeins orðabreyt. og sömuleiðis breyt. á 4. tölul. 3. gr. Hún á aðeins að kveða skýrar á um það, að hinar einstöku deildir byggingarsjóðanna séu ekki í samábyrgð hver fyrir aðra. Aðalefni frv. er það, að sameina alla byggingasjóði undir eina stjórn, til þess að gera byggingarsjóðunum og félögunum hægara um lántökur heldur en ef sjóðunum er komið fyrir í deildum úti um landið, eins og nú er. Sjóðirnir og félögin eiga mörg erfitt um lántökur, en með þessu mundi aðstaða þeirra bætt, þar sem þau þyrftu aðeins að leita til hins sameiginleg, sjóðs. En á því ríður vitanlega mikið, að næg lán og með sem beztum kjörum fáist til bygginganna, eins og t. d. hafa fengizt til verkamannabústaðanna hér í Rvík síðast, þar sem til þeirra fékkst lán með 4% vöxtum. Þriðja brtt., sem er við 4. gr. frv., er og að mestu leyti orðabreyt. Þar er aðeins kveðið skýrar á um það, að byggingarsjóði sé heimilt að veita aðeins eitt lán, allt að 85% af kostnaðarverði eignarinnar, með fyrsta veðrétti. Í frv. er svo tiltekið, að lána megi þetta í tvennu lagi, 60% af virðingarverði eignarinnar út á fyrsta veðrétt, og svo einnig út á 2. veðrétt, en þó ekki meira en það, að samanlagður fyrsti og annar veðréttur nemi ekki meiri fjárhæð en 85% af kostnaðarverði eignarinnar.

Þá er brtt. við 6. gr. Hún kveður nákvæmar á um það en gert er í frv., að komi það fyrir, að kaupstaður, sveitarfélag eða ríkið eigi ekki nægilega hentugar byggingarlóðir í þessu skyni, þá megi taka þær eignarnámi hjá einstaklingum, ef þörf krefur.

Þá ber n. fram þá brtt. við 8. gr. frv., að í staðinn fyrir að atvmrh. skipi 3 menn í stjórn byggingarsjóðs, skuli stjórn hans skipuð mönnum, og kjósi sameinað Alþingi 4 þeirra með hlutfallskosningu, en atvmrh. skipi einn þeirra, sem skuli vera form. sjóðsstjórnarinnar. Er þetta gert til samkomulags, svo stjórnmálaflokkarnir geti haft þar sína fulltrúa. Síðasta brtt. er um það, að stj. byggingarsjóðs og endurskoðendur skulu í fyrsta sinn kosnir á Alþingi 1934. - Að öðru leyti þykir mér ekki ástæða til að gera grein fyrir þessum brtt. allshn., en mælist til þess, að þær verði samþ. og að frv. nái fram að ganga með þeim.