17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

22. mál, verkamannabústaðir

Thor Thors:

Eins og hv. frsm. allshn. hefir lýst yfir, er n. sammála um þær brtt., er hún flytur, að því fráskildu, að ágreiningur er um gr. frv., og höfum við hv. 8. landsk. flutt brtt. við hana á þá leið, að í staðinn fyrir, að frv. gerir ráð fyrir, að byggingarsjóður veiti lán aðeins til eins félags í hverjum kaupstað, þá leggjum við til, að sjóðurinn veiti lán til fleiri félaga, ef þau fullnægja ákvæðum 6. gr. frv. Það er sem sé ekki takmark laganna nr. 71 frá 1931 að veita lán aðeins einu félagi á hverjum stað, hvorki í kaupstöðum eða kauptúnum, heldur er þvert á móti gert ráð fyrir því, að byggingarsjóður veiti lán til fleiri félaga. Það er því ekki rétt, að lögin banni það, að byggingarsjóðir kaupstaða veiti lán til fleiri en eins félags á hverjum stað, heldur gera þau þvert á móti ráð fyrir því, að svo sé gert. Það er því fyllilega í samræmi við lögin, að í Rvík eru stofnuð tvö byggingarfélög. (Hv: Hvar er það í lögunum?). Það kemur fram í fyrstu málsgr. 3. gr. Þar er sagt, að byggingarsjóður skuli lána til „byggingarfélaga“. Enda eru ýmsar eðlilegar ástæður fyrir því, að félögin verði fleiri en eitt á hverjum stað. Í fyrsta lagi sú ástæða, að sumum þykir æskilegast, að byggðar séu stórar sambyggingar, þar sem er fjöldi sameiginlegra íbúða, en aðrir óska frekar, að byggð séu smáíbúðarhús fyrir eina fjölskyldu hvert, með lóðum í kring. Hvorttveggja þetta fyrirkomulag er heimilað í lögunum um verkamannabústaði. En það, sem byggingarfélag verkamanna hefir byggt hér í Rvík, er aðeins stórar sambyggingar, því forráðamenn félagsins, eins og hv. 2. þm. Reykv., hafa þá skoðun, að svo eigi að byggja, og sú skoðun hefir ráðið. Félagar í byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna vilja heldur hina aðferðina. Þeir telja smáhúsin nauðalítið dýrari, en á margan hátt heppilegri. Þess vegna hefir það félag verið myndað. Og nú telur það félag um 350 meðlimi, en hinsvegar eru ekki nema á annað hundrað meðlimir í því félagi, sem hingað til hefir starfað.

Þá eru þeir, sem myndað hafa byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, ekki ánægðir yfir því að hrúga íbúðunum á einn stað í bænum, eins og hitt félagið hefir gert með byggingu bæjarhverfis í Vesturbænum, þrátt fyrir það, þó að félaginu hefði verið boðið ágætt land í Austurbænum. Það er eðlilegt, að þeir, sem eiga að nota íbúðirnar, kjósi ekki allir að vera á sama stað í bænum.

Þá er það eitt atriði, sem skilur á milli þessara tveggja félaga, og það er það, að í eldra byggingarfélaginu hvílir ótakmörkuð ábyrgð á öllum félögum, þar sem einn ábyrgist fyrir alla og allir fyrir einn. Þessi sameiginlega ábyrgð gildir fyrir einstaklinginn, hvort sem hann hefir fengið nokkurt hús eða ekki. Slík samábyrgð er ekki nauðsynleg, enda er það beint heimilað í samvinnulögunum frá 1921, að henni megi sleppa. Í byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna er þessi ábyrgð takmörkuð, þannig, að aðeins þeir, sem hafa fengið hús, bera ábyrgðina, og aðeins fyrir þeirri upphæð, sem þeir hafa fengið til þess húss, er þeir fá, enda mega þeir ekki veðsetja húsið öðrum en félaginu. Þeir leggja því einungis það fé í hættu, sem þeir hafa fengið frá félaginu. Af þessum ástæðum má sjá, að það var mjög eðlilegt, að verkamenn stofnuðu byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, enda eru nú komnir í það 350 félagar. Þeir hafa allir greitt í félagssjóð 10 kr. stofngjald, og auk þess greiða þeir árgjald til félagsins 3 kr. Ef nú á með harðvítugri löggjöf að fara að eyðileggja þetta félag, sem löggjafinn sjálfur hefir gefið tilefni til að var stofnað, og láta allan þann kostnað, sem hjá byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna hefir óhjákvæmilega farið í undirbúning, verða að engu, þá er þeim mönnum, sem að félaginu standa, bakað verulegt tjón að ástæðulausu og af einskærri illgirni.

Ég hefi nú bent á það, að félagið var stofnað samkv. gildandi lögum og starfrækt í þeim tilgangi að gefa sem flestum kost á að njóta þeirra hlunninda, sem löggjöfin hefir fram að bjóða. Ég get eigi séð ástæðu fyrir löggjafann til þess að fara nú að banna öðru félaginu að starfa, en leyfa hinu að halda áfram. Ég sé ekki betur en það sé illa viðeigandi vegna þeirra hlunninda, sem löggjöfin veitir í þessu efni, að gera mun á félögunum af pólitískum ástæðum, og láta skoðanir ráða því, hverjir verði aðnjótandi hlunnindanna eftir lögunum um verkamannabústaði frá 1931.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að meiri hl. allshn. kæti ekki fallizt á brtt. okkar sjálfstæðismanna í n., en ég hygg, að hv. þm. Barð. láti sig þennan ágreining í n. ekki miklu skipta. Mér hefir heyrzt, að honum sé það ekkert kappsmál að eyðileggja byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna. Ég vona, að hv. 2. þm. Reykv. og aðrir, sem honum fylgja, fái að þreifa á því, að menn úr öllum flokkum geti ekki verið með því að beita þennan félagsskap verkamanna í bænum neinum fantatökum. Treysti ég svo á sanngirni hv. þm., að þeir sjái sér fært að samþ. brtt. okkar hv. 8. landsk. á þskj. 82.