17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

22. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Snæf. gat ekki mótmælt neinni af þeim ástæðum, sem ég færði fram gegn því, að hér í bænum störfuðu tvö eða fleiri byggingarfélög, svo ég sé ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka þar. Hann var að vitna í 3. gr. laganna um það, að fleiri en eitt byggingarfélag mættu starf, á sama stað, en þetta er eingöngu blekking hjá hv. þm., og geta hv. þingdm. lesið það sjálfir og sannfært sig um, að svo er ekki. Þar stendur aðeins, að Byggingarsjóður veiti byggingarfélögum lán, ef þau starfa á samvinnugrundvelli, til þess að byggja íbúðarhús handa félögunum. Hér er ekkert orð um þetta nánar, hvernig ætlazt er til, að lánin séu veitt. (JakM: Það stendur „til félaga“). Félögin eru að sjálfsögðu mörg í landinu. En sjálfstæðismenn hugsa sér nú að teygja þetta orðalag þannig, að meint sé, að byggingarsjóðir láni til fleiri félaga á hverjum stað, en það er algerlega rangt og allir vita, sem fylgdust með þegar lögin voru sett, að það var gert gegn fjandsamlegri andstöðu frá sjálfstæðismönnum, og að það var ekki fyrr en löngu eftir að lögin voru sett og tekin til framkvæmda, að þeim hugkvæmdist það ráð að stofna sprengifélög á sumum stöðunum, til þess að draga frá því félagi, sem stofnað var samkv. lögunum og sem í Reykjavík var að byggja. Það er ósatt hjá hv. þm., að stjórn byggingarfélags verkamanna hafi neitað sínum félagsmönnum um að byggja fyrir þá sérstakar íbúðir. Þeir sáu sjálfir, að þær yrðu miklu dýrari en þær, sem byggðar voru, og hv. þm. getur talað við hvern sem er af þeim, sem íbúðirnar hafa tekið, og sannfært sig um, að þeir eru ánægðastir með þær eins og þær eru. Hitt er rétt, að Byggingarfélag verkamanna hefir ekki haft þá sömu aðferð og félag sjálfstæðismanna, að smala meðlimum út um borg og bý. Það hefir ekki séð neina þörf til þess að bæta fleiri mönnum í félagið en þeim, sem hægt var að byggja fyrir á hverjum tíma, og þann áhuga höfðu fyrir málinu, að þeir komu sjálfkrafa.

Hv. þm. var að tala um, að byggingunum hefði verið hrúgað á einn stað í Vesturbænum þrátt fyrir það, þó félaginu hefðu boðizt lóðir í Austurbænum. Borgarstjórinn, Jón Þorláksson, bauð að vísu lóð í Austurbænum, sem var svo lítil og léleg, að bæði húsameistari ríkisins og byggingameistari okkar töldu hana ófæra. Við kusum því heldur lóð á ágætum stað, og verkamennirnir, sem áttu að fá húsin, kusu sér þessa lóð og aftóku að leigja lóð þá, sem borgarstjóri vildi pranga inn á félagið, en enginn annar vildi taka. Þeir vildu byggja saman, enda eru þeir ekkert hræddir við að búa margir saman. Alþýðan í Reykjavík er vön við að búa þannig og kann vel við það. Annars hefir byggingarfélag verkamanna gert margvíslegar tilraunir til að fá lóðir á fleiri stöðum og farið fram á það við íhaldsstjórnina hér í bænum, en ekki fengið svar, þrátt fyrir það, þó hún sé skyld til að svara slíkum beiðnum eftir lögunum. Aftur er víst, að íhaldið hefir lofað hinn félaginu lóðum hér og þar í bænum, áður en vitað var, hvort nokkrir vildu ganga í það, eða hvort félagið mundi starfa innan ramma þeirra laga, sem því var skylt að starfa eftir. Auk þess mun íhaldsstjórn bæjarins hafa látið byggingameistara í þjónustu bæjarins vinna mikið verk kauplaust fyrir sjálfstæðisfélagið. En þetta eru auðvitað ekki nema venjuleg dæmi um rangsleitni íhaldsins, að vilja gefa sínum mönnum betri aðstöðu en öðrum.

Þá talaði hv. þm. um, að girnilegra væri að byggja smærri hús. Ég hefi fært fram ástæður fyrir því, að engir þeirra, sem byggt var fyrir, vildu velja þá leið. Hinsvegar hefir okkar byggingarfélag gefið sínum mönnum kost á því að byggja smáhús, ef þeir teldu það heppilegra, en þeir hafa ekki óskað þess, að undangenginni rannsókn. Þeir hafa talið það á margan hátt heppilegra að búa í sömu byggingu heldur en í sjálfstæðum húsum.

Þá hélt hv. þm. því fram, að samábyrgðin, sem er skilyrði í þessu félagi, væri leiðinleg fyrir þá, sem aldrei væri byggt fyrir. En það hefir ekki borið á því, að félagsmenn hafi kveinkað sér undan þeirri ábyrgð. Það hefir engin rödd heyrzt í þá átt, að samábyrgðin væri hættuleg. Ef félagar væru þeirrar skoðunar, gætu þeir hæglega breytt lögunum, t. d. í deilda-samábyrgð, en enginn hefir farið fram á það. Og væntanlega verður félaginu stjórnað svo vel, að til þess þurfi ekki að koma að neyta samábyrgðarinnar.

Ég þarf svo ekki að segja meira að sinni. Sjálfstæðismennirnir í n. vita vel, hver afstaða meiri hl. n. er gagnvart þeirra brtt., og ég vænti þess, að atkvgr. í d. sýni þeim það, að flokkur þeirra hér í bænum fær ekki með ofbeldi sínu og einræði að eyðileggja byggingarmál verkamanna.