17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það kom í ljós á tiltölulega skömmum tíma, hver niðurstaðan mundi verða í þessum byggingarfélagsmálum verkamanna. Það kom í ljós, að félagsskapnum var lokað fyrir þeim, af stjórn félagsins, sem höfðu aðrar pólitískar skoðanir en forsprakkarnir sjálfir. Ég hélt því fram þegar í fyrstu, að þessi lög væru sett í því skyni að stofna félag utan um pólitíska foringja, þar sem foringjarnir gætu veitt sínum mönnum alveg sérstök hlunnindi á kostnað hins opinbera, með þeim ávinningi fyrir sjálfa sig að geta svo haft þessa menn undir sínum handarjaðri og vera vissir um þeirra liðveizlu í pólitík. Það sást undir eins vel, þegar veðdeild Landsbankans var útilokuð frá því að lána til þessara bygginga með sínum 6% vöxtum, að það var gert til pólitísks framdráttar fyrir vissa menn. Þetta var gert í því eina skyni, í stað þess að ég vildi nota framlag ríkissjóðs og það, sem bæjarsjóðir voru skyldaðir að leggja til, til þess að stofna varasjóð, er lánaði út á 2. veðrétt í húsunum á eftir veðdeildinni. Það ráð var ekki tekið, heldur hitt, að fá þetta fé í hendur pólitískum foringjum, sem vildu njóta pólitískra fríðinda af því að útbýta því til manna, er þeir gætu safnað um sig og notað í sína þjónustu. Fyrst voru það foringjar jafnaðarmanna, sem stofnuðu byggingarfélag verkamanna utan um sig, síðan var stofnað byggingarfélag samvinnumanna handa þeim framsóknarmönnum, sem hingað hafa flutzt nú í seinni tíð, eftir að búið var að telja þeim trú um, að Rvík væri slík blóðsuga á þjóðinni, að hvergi væri nú orðið lífrænt nema hér, og svo hafa þeir flutt fjölda margir til þess að lifa hér betra lífi og sjúga blóðið eins og aðrir. Þeir hafa svo sett hér upp byggingarfélag með samvinnusniði, sem nýtur alveg merkilegra hlunninda hjá ríkissjóði og bæjarfélagi, með lánskjörum úr byggingarsjóði, sem eru þannig, að þeir fá akkurat gefins andvirði húsanna, þar sem þeir þurfa ekki að greiða nema 5% af lánunum í vexti og afborgun. Ég verð að segja, að það séu hagkvæm kjör, eftir því sem gerist hér á voru landi. Þeir, sem fá íbúðirnar, þurfa aldrei að borga þær, þeir þurfa aðeins að borga af láninu - 5% í vexti í 40 ár. Það er allt, sem þeir þurfa að borga; kostnaður við sjóðsstjórnina er greiddur annarsstaðar frá. M. ö. o., sjóðurinn gefur þessum mönnum allt það fé, sem þeir fá að láni, miðað við þau lánskjör, sem almenningur hefir við að búa á þessu landi. Það er því engin furða, þó að sósíalistar sjái þarna leik á borði að ná yfirráðum yfir þessu fé, til þess að geta notað þessi fríðindi handa þeim mönnum, sem þeir með því gefa unnið til fylgis við sig. Það er bein afleiðing af því, hvernig þetta mál var tekið upp á sínum tíma. Þó hefir fyrir greind eða mannvit, sem um lög þessi fjölluðu, verið komið inn í lögin ákvæði um það, að byggingarsjóður mætti lána til fleiri félaga, en svo þegar menn, sem ekki tilheyra flokki sósíalista, vilja njóta þessara hlunninda, þá verða þeir æfir og uppvægir og vilja umsvifalaust láta svipta þau félög fríðindunum, sem þeir geta ekki notað í þágu síns flokks. Mér kemur þetta ekki á óvart. Ég sá, að þegar í upphafi var til þessa stofnað með lögunum um byggingarsjóði verkamanna. Það átti frá upphafi að nota þetta mál sósíalistaforingjunum til framdráttar.

Ég skil vel, hvað hv. 2. þm. Reykv. er að fara. Þegar sjálfstæðir verkamenn vilja fá lán úr sjóðnum, segir hann: Nei. Við, sem fundum upp á þessu, viljum láta okkar menn njóta þess, við gefum þeim, en ekki hinum, sem eru okkur andvígir. Við sleppum ekki þessum hlunnindum við aðra en þá, sem eru okkur þægir og hlynntir, svo að við getum hóað þeim saman á einn stað og notað þá eftir okkar vilja sem árásarher, ef á þarf að halda. - Ég meina að sjálfsögðu aðeins á pólitískan hátt. Þess vegna er það ekkert undarlegt, þótt hv. frsm. sé mjög harður á því, að ekki sé orðið við þeim óskum, sem fram hafa komið úr Rvík um að sjóðurinn skyldi vera frjáls fleirum en sósialistum og framsóknarmönnum í bænum.

Ég veit ekki, hvað rétt er í því, sem hv. þm. sagði, að mjög væri takmörkuð geta sjóðsins til lána. Hún er því minna takmörkuð, sem lánskjörin eru betri, sem sjóðstjórnin fær, því það framlag, sem lagt er úr ríkissjóði og bæjarsjóði, er það fé, sem takmarkar getu sjóðsins, og það fé nemur um 120-130 þús. kr. á ári. Það er því undir því komið, hvað mikið fé fer af þessu fé til þess að borga mismuninn af vöxtum þeim, sem verkamenn sjálfir borga, og þeim, sem sjóðurinn verður að borga. 120 þús. kr. eru mikið fé, og ég skil ekki, að möguleikar sjóðsins til lána sé þröngur með þessu fjármagni árlega til þess að nota til greiðslu á vaxtamismun. Og ef það er meiningin hjá hv. þm. að mótmæla þessari sjálfsögðu till., sem minni hl. allshn. hefir borið fram, vegna þess að fé sé ekki fyrir hendi til meiri starfsemi, þá finnst mér hann ætti að leggja fram gögn um það, hvað mikið á ári fer af þessum 120 þús. kr. til þess að borga vaxtamismun; því svo lengi, sem það fé nægir til þess að greiða vaxtamismun, ættu möguleikar að vera fyrir hendi til lána. Og svo lengi sem þessi fríðindi eru aðeins fyrir fáa menn, því meira verður það fyrir hvern, sem nýtur þeirra, og þess vegna verður það að vera krafa, að sem mest sé að því gert að byggja eftir þessum l., til þess að þeim fjölgi, sem hagsmunanna njóta. Mér finnst það ekki geta komið til mála, að það sé tekið gott og gilt hjá hv. þm., að lánsfé sé svo takmarkað, að þeir einir fái að sitja að því, sem vilja byggja stórhýsi fyrir sósíalistíska verkamenn. Nú er það líka fánýt ástæða, sem hv. frsm. nefndi, að ekki megi vera nema eitt byggingarfélag á hverjum stað, því það er á valdi sjóðstj., hvort hún bætir við nýju félagi til þess að lána eða ekki. Sömuleiðis er það á valdi sjóðstj., hvort hún telur viturlegt eða hentugt að lána fé til samvinnubygginga eða einstakra húsa.

En mér virðist hv. þd. varla geta fallizt á þá skoðun og skilning, sem kemur fram í frv. og till. meiri hl. allshn., að þessi byggingarsjóður verkamanna, sem ríkið og bæjarfélagið leggur fé til, sé stofnaður til pólitískra hagsmuna stjórnmálaflokka, en það er bein og rökrétt afleiðing og ályktun, sem dregin verður af því, að þessari till. minni hl. allshn. um að lána fleiri félögum, er ekki sinnt og sú till. verður felld.