17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

22. mál, verkamannabústaðir

0972Stefán Jóh. Stefánsson:

Ef til vill er það óþarfi að fjölyrða um mál það, sem hér liggur fyrir, en það kom dálítið fram í þessum umr., sem gaf mér tilefni til að standa upp. - Ég vil þá fyrst vekja athygli á, að það er til að gleðjast yfir, að Sjálfstfl. hefir tekið sinnaskiptum í afstöðunni til þessa máls. Á þingi 1929, þegar frv. til l. um byggingu verkamannabústaða var borið fram fyrst, réðust sjálfstæðismenn á móti frv., sem þó náði fram að ganga. Það gleður mig því að heyra af vörum sumra sjálfstæðismanna, sem talað hafa hér í d. í dag, að þessi löggjöf sé þörf og hafi orðið til góðs, og vil ég þá sérstaklega tilnefna hv. 8. landsk. og hv. þm. Snæf., sem báðir hafa lýst fylgi sínu við innihald l. um verkamannabústaði. En það er aðeins eitt atriði, sem valdið hefir ágreiningi, bæði innan allshn. og hér í d., og það er, hvort leyfa eigi fleiri en eitt byggingarfélag á hverjum stað. Ástaðan, sem sjálfstæðismenn hafa flutt fyrir því, að rétt væri að leyfa tvö byggingarfélög hér, var sú, að reynslan hér í Rvík hefði sýnt, að mönnum hefði ekki líkað framferði þess félags, sem hér hefði starfað undanfarið. En ég verð að mótmæla því, að þeir menn, sem hafa gengið í þennan félagsskap, hafi kunnað illa framkvæmdum félagsins. Þetta er því bara út í bláinn sagt. En ef risið hefði upp óánægja meðal manna, sem standa utan við þennan félagsskap, en hefðu vegna þjóðfélagsafstöðu sinnar rétt til þess að ganga í hann, þá hafa þeir ekki gert það, sem þeim virðist hafa verið innan handar, að sækja um inngöngu í þennan félagsskap og beita áhrifum sínum til breytinga á framkvæmdum félagsins sem þeir væru menn til. En ég held, að kjarninn í þessu máli sé allur annar, eins og líka kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. Hann var að tala um fríðindi og framdrátt foringjanna, eins og hann orðaði það, sem hefði haft áhrif í þessu máli. Ég ætla, að það hafi komið upp einskonar öfund meðal sjálfstæðismanna út af hinni myndarlegu starfsemi byggingarfélags verkamanna á undanförnum árum, og að þeir hafi viljað fara í einskonar kapphlaup við þetta félag og reyna með því að ávinna sér traust verkalýðsins í bænum. En þeir byrjuðu bara á öfugum enda. Þeir áttu að benda sínum fylgifiskum á að ganga í þennan félagsskap og reyna að hafa áhrif til breytinga á honum, en ekki að stofna nýtt félag, því ég; sé ekki, að nokkur ástæða sé til að ætla, að tvö félög afreki meira með 500 sömu mönnunum en eitt félag. Ég sé engin rök, sem mæla sérstaklega með því. Nú er það vitað og hefir ekki verið mótmælt, að Byggingarfélag verkamanna í Rvík veitir öllum inntöku, sem þangað sækja. Þar er ekki spurt um pólitískar skoðanir manna, er þeir leita upptöku, enda eru í þessum félagsskap menn af öllum stjórnmálaflokkum. En þeir menn hafa að vísu verið á oddinum, sem notið hafa mest trausts þeirra manna, sem í félagsskapnum hafa verið. Ég held þess vegna, að ekki sé ástæða til að ætla, að brtt. minni hl. allshn. sé sprottin af neinni sérstakri umhyggju fyrir hugmyndinni um byggingu verkamannabústaða hér í Rvík, heldur vegna þess, að þeir vilja reyna að koma á fót félagsskap sinna trúuðu manna, til þess að njóta þeirra hlunninda, sem löggjöfin veitir mönnum þrátt fyrir megna andstöðu sjálfstæðismanna. Og ef nokkurntíma hefir komizt pólitík inn í þetta mál, þá er það með stofnun byggingarfélags sjálfstæðra verkamanna. Það hljómar fallega í eyrum, sjálfstæðir verkamenn og sjálfstæðir bústaðir, og það hefir hljómað vel hér á landi að tala um sjálfstæðismenn, en ég veit, að álitið á því nafni hefir þorrið á síðari árum, síðan þeir menn, sem engin sérstök afskipti hafa haft af sjálfstæðismálum þjóðarinnar hafa tyllt á sig þessari nafnbót. En þetta nafn gefur grun um, að hér sé verið að stofna félagsskap í nánu sambandi við einn stjórnmálaflokk, og sú pólitík, sem hlaupin er í þetta mál, er runnin frá Sjálfstfl., og þeir hafa viljað halda pólitíkinni við með því að reyna að koma af stað tvístringi um byggingar verkamannabústaða og reyna að gera tortryggilegan félagsskap, sem hér hefir starfað undanfarin ár. En sjálfstæðismenn hafa ekki sýnt það í byggingarmálum Rvíkur, að þeim sé sérstaklega trúandi til sigurvænlegrar forystu í þessum efnum. Talandi tákn byggingarstarfsemi Sjálfstfl. hér í Rvík eru Suðurpóll, Grímsbý og Selbúðirnar.

Ég vil því brýna fyrir hv. dm., að þeir, sem samþ. brtt. minni hl. n., vilja halda við tvískinnungnum og pólitíkinni í byggingarmálum alþýðunnar hér í Rvík og annarsstaðar, en þeir, sem ganga gegn þessari brtt., vilja halda áfram sameiningu félagsskapar manna í kaupstöðum landsins til myndarlegra átaka með byggingar verkamannabústaða, eins og hér hefir verið í Reykjavík.