17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það var tvennt, sem gerðist með þessari nýju stefnu: Lokun veðdeildar Landsbankans, en upp voru tekin í staðinn pólitísk félög. Fyrst og fremst var horfið af þeirri braut, sem áður hafði verið farin mjög varlega, að veita ábyrgð ríkissjóðs á fasteignaveðum í landinu. Það var annar liðurinn í hinni nýju stefnu að breyta út af þessu og taka á ríkissjóð mjög alvarlega áhættu af lánum til bygginga í landinu. En hitt hefir verið bent á áður og allir vita, að með l. um verkamannabústaði voru þar að auki veitt margskonar hlunnindi. Og út af því vil ég gjarnan segja við hæstv. fjmrh., sem virtist undrandi yfir því, að þeir, sem ekki fylgja honum, hans flokki og sósíalistum að máli, skyldu vilja njóta sjálfir þeirra hlunninda, sem þessir flokkar hafa ætlað sér einum. (Fjmrh.: Ég undraðist það ekkert). Jú, mjög, að yfirleitt skyldu sjálfstæðismenn taka þátt í að njóta þessara hlunninda. En því meiri sem hlunnindin eru, því ólíklegra er, að flokkar, sem hafa ætlað sér þau, geti setið einir að þeim. Ég hélt, að m. a. hefði það verið tilgangur þeirra, að fá sjálfstæðismenn einn og einn í þessi félög, til þess að koma því til vegar, að þeir hættu þeim „misskilningi“, sem það er kallað, að vera sjálfstæðismenn. Það var einn tilgangurinn með þessum nýju hlunnindum að geta veitt þá, sem kynnu að vera af misskilningi sjálfstæðismenn. Og það má vel vera, að þeir menn séu til. En allt kemur þetta til af því, að aðalverkefni þessara flokka, sem nú hafa runnið saman í einn og myndað stj., er að mismuna mönnum í þjóðfélaginu. Og af því að tekst ekki beinlínis til lengdar að mismuna mönnum eftir pólitískum flokkum, mega þeir draga þá ályktun, að það sé röng pólitík. Því að þeir, sem í þessu tilfelli telja sig sjálfstæðismenn, eru margir fúsir til þess að hagnýta sér þessi hlunnindi, þótt þau hafi verið ætluð einhverjum vissum mönnum. Og þegar þetta kemur í ljós, mega sósíalistarnir ekki verða undrandi og ávíta þá menn, sem hafa staðið á móti því, að hlunnindin væru veitt í upphafi, þótt þeir vilji nú njóta þeirra, úr því þau á annað borð voru látin ná fram að ganga. Þetta er bein sönnun fyrir því, og hin eðlilega og réttmæta sönnun fyrir því, að pólitísku flokkarnir fara rangt að, þegar þeir mismuna borgurunum á þennan hátt. En það er ekki í þessu eina atriði, sem þessir flokkar vilja mismuna borgurunum. Einungis sýnir þetta atriði ljóslega, hversu ólífvænleg pólitík það er, að standa að því og hafa sem aðalmarkmið í stjórnmálabaráttunni, að mönnum sé mismunað. Ég áfellist ekki þá kaupstaði, sem ekki hafa ennþá stofnað hjá sér byggingarfélög og reynt að hagnýta sér lögin. Það er einungis vegna þess, að til þess að hægt sé að mismuna verulega flokki manna í bæjar- eða þjóðfélagi, þá þarf það að vera nokkuð stórt. Þetta er ein ástæðan til þess, að þetta hefir ekki verið tekið upp í smákaupstöðunum úti um land, því að þeir eru ekki nægilega stórir til þess, að hægt sé að taka verulega frá einum til að gefa öðrum. Þetta er hægt hér í Rvík. Við erum hér svo margir, að þetta er hægt og hefir verið gert með þessum l. En það er því erfiðara, því minni heild, sem um er að ræða. Þetta er að komast á í Hafnarfirði, að sagt er, og kemur það sjálfsagt til af því, að Hafnarfjörður er nú stærstur kaupstaður utan Rvíkur og líklega sá, sem einna mesta getuna hefir. Þar eru meiri framkvæmdir heldur en á mörgum öðrum stöðum og því eðlilegt, að Hafnarfjörður yrði næsti staðurinn. En þar, sem fólksfjöldinn er undir vissu marki, getur slíkt ekki átt sér stað. En ég vil að lokum segja það, að ég sannfærist ekki um það, sem ég hélt fram í fyrri ræðu, að geta væri til þess að lána til þessarar starfsemi, enda fékk ég enga vitneskju þessu viðvíkjandi hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann var með óákveðið orðalag, en þetta verður ekki sett fram öðruvísi en með tölum, ef skiljanlegt á að vera. Og mér finnst, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, sé skylt að upplýsa, hve mikið fé úr ríkis- og bæjarsjóði fer árlega í vaxtamismun og kostnað við sjóðstjórn og hverjir möguleikar eru á því, að þessi sjóður standi í raun og veru undir sínum verkefnum. Það er einnig verkefni til athugunar, hvort þörf sé á fleiri félögum en einu á hverjum stað, eða hvort heppilegra sé að þau séu fleiri.