17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

22. mál, verkamannabústaðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði ekki veitt sér mikið sár með því að tala um, að þeirra aðalstefnumál væri að mismuna mönnum, því að þetta væri alveg rétt. Það má bæta því við, að það er líka aðalaðferð þeirra til að afla sér fylgis. Ég vil ekki, að mín orð séu skoðuð þannig, að ég persónulega eða flokkurinn, sem ég fylgi, geti ekki hugsað sér að mismuna mönnum á þann hátt, sem alltaf hefir verið. Það er nokkuð, sem allir geta verið sammála um. Ég ætla að taka nærliggjandi dæmi til skýringar á því, sem ég átti við í sambandi við þetta mál sérstaklega. Það getur ekki verið verkefni þingsins og bæjarfélagsins, eins og sósíalistar halda fram, að koma því til vegar, að verkamönnum þjóðfélagsins sé mismunað, þannig, að sagt sé við einn verkamanninn t. d.: þú skalt fá 50 króna spegil eða gúmmígólf til að ganga á, eða einhver önnur lífsþægindi, - en að annar fái ekki neitt. Svona ráðstafanir á ríkisvaldið ekki að gera, þar sem einum manni eru veitt skilyrði til betri lífskjara, en öðrum ekki. En það er einmitt þetta, sem er aðalatriðið fyrir þessum mönnum, að hæna menn að sínum pólitísku skoðunum með einhverjum hlunnindum. Með þessum stórkostlegu hlunnindum, sem hér um ræðir, getur ekki nema 1/20 hluti verkamanna notið góðs af, og það eru pólitískir samherjar valdamanna flokksins, sem þeirra eiga að njóta, en eins og ég áður hefi tekið fram, þá er það ekki verkefni ríkisvaldsins að mismuna mönnum á þennan hátt.