17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

22. mál, verkamannabústaðir

Jón Pálmason:

Það eru líkur til, eftir því sem umr. hafa fallið í þessu máli, að ég eigi hér nokkra sérstöðu. Það er ljóst af því, sem hér hefir komið fram hjá öllum, sem til máls hafa tekið, að þau fríðindi, sem þessi l. veita, eru talsvert mikil, og þau hlunnindi, sem hér um ræðir, nokkuð rík til þeirra einstaklinga, sem þeirra eiga að njóta. Fyrir mér hefir það vakað, ekki aðeins nú, heldur um langan tíma, að einmitt þessi lög væru eitt með öðru merki um það, hvernig á undanförnum árum hefir verið farið að beita ríkisvaldinu í þá átt, að hafa áhrif á, hvernig straumarnir hafa stefnt í landinu.

Það er síst að undra þó að fólkið flykkist í hina stærri kaupstaði, þegar svo er komið í þessu efni, að farið er að byggja yfir nokkurn hluta þess með ríkisstyrk. Og það er einmitt gert hér í Rvík, þar sem skilyrðin eru að ýmsu leyti bezt. Jafnframt þessu hefir líka verið gripið til þeirra úrræða, að leggja fram fé úr ríkissjóði til þess að veita sumu af þessu fólki atvinnu, af því að ekki er næg atvinna fyrir það. Ég skal taka það fram, að ef hér væri svo ástatt, að ekki væri nægilegt húsnæði fyrir það fólk, sem stundar þá vinnu, sem hér er á boðstólum og gefur arð, þá er frekar ástæða til þess að veita styrk úr ríkissjóði til slíkra hluta. En þegar fleira fólk er hér en líkur eru til, að geti fengið atvinnu, nema þegar bezt lætur, og þegar svo er farið að byggja yfir það fyrir fé úr ríkissjóði, þá þykir mér of langt gengið og stefnt í ranga átt. Þess vegna tel ég ákaflega hæpið að verja fé úr ríkissjóði til bygginga á þeim stöðum, sem svo hagar til, nema jafnframt sé séð fyrir auknum atvinnuskilyrðum, svo að fólkið hafi næga vinnu, sem gefur arð. En þegar svo er upplýst, að jafnframt því, sem áður er tekið fram, á að ganga inn á þá braut, að gefa vissum félögum eða einstaklingum einkarétt á því, hverjir hljóti þau fríðindi, sem hér um ræðir, þá tekur alveg út yfir. Í því sambandi vil ég taka það fram, að sé það réttlátt, sem ég tel ekki vera, að veita fé til þessara hluta, á það að sjálfsögðu ekki að vera neinn einkaréttur til vissra félaga, heldur handa hverju því félagi, sem fullnægir þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir þessum styrk. Í því, sem vikið hefir verið að afstöðu flokka til þessara mála hér í þessari hv. d. í dag, hafa mér þótt ýmsar undarlegar setningar sagðar, en þó ekkert eins og það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það sýndi sig í þessu eins og svo mörgu öðru, að þegar einn flokkur hefði komið á umbótum í einhverjum greinum, vildu sjálfstæðismenn njóta þeirra líka, og það sannaði, að fólkið væri í Sjálfstfl. af misskilningi. Það er dálítið undarlegt að heyra því slegið fram hér, að þær 22 þús. kjósenda, sem fylgdu Sjálfstfl. við síðustu kosningar, séu í honum af misskilningi, fyrir það, að þeir álíta, að fríðindi séu ekki fyrir einstaka menn, en vilja, að fleiri fái að njóta þeirra en þeir, sem fylgja flokknum, sem til þeirra hefir stofnað.

Ef hægt væri með aðstoð hæstv. fjmrh. og annara, sem ráðin hafa, að byggja yfir alla þjóðina hér í Rvík og annarsstaðar, að nokkru leyti á kostnað ríkisins, þá efast ég ekki um, að mönnum fyndist það aðgengilegt, engu síður sjálfstæðismönnum en öðrum, en sú stefna, sem kemur fram í þessum l., eins og mörgum öðrum, kemur þannig út, að verið sé að hafa með ríkisvaldi áhrif á að stefna fólksstraumnum einmitt á þá staði, þar sem flestir eru fyrir.