17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

22. mál, verkamannabústaðir

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég veit ekki nema ég gleymi skepnunni honum Katli, ef ég tek hann ekki strax til athugunar.

Hv. 1. landsk. var að tala um kapphlaup. það sjá nú allir, að þessi hv. þm. er illa fallinn til kapphlaupa líkamlega, en þó er hann enn verr fallinn til andlegra kapphlaupa, og það finnst mér hann hafa sannað, þegar hann var að tala um, að ég hefði hlaupið kapphlaup til Akureyrar í sumar. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég er ekki sérlega vel fallinn til hlaupa. Ég er maður farinn að eldast, svo að það er varla við öðru að búast. Í því kapphlaupi var ég líka nokkuð seinfær, því að kosningarnar voru hér 24. júní, en ég fór ekki norður fyrr en 18. ágúst, en þeir, sem voru í kapphlaupinu með mér, voru þó ennþá seinfærari, þar sem þeir fóru ekki af stað fyrr en 4. september.

Hv. þm. Hafnf. er einn þeirra manna, sem manni leiðist að hlusta á verja rangan málstað. Hann fór svo skringilega að því að játa, að það hefði verið rétt, sem ég sagði. Hann sagði, að dregizt hefði að stofna félagið, en þegar það hefði verið stofnað, þá hefði verið gerðar ráðstafanir til þess, að sjóðurinn gæti staðið við sínar skyldur. Þetta er játning um það, að fé hafi ekki verið fyrir hendi, og þar sem hann segir, „að gerðar hafi verið ráðstafanir til að fá fé“, þá er augljóst, að það, sem ég sagði, var rétt.

Að því leyti, sem hann kom að því efni, sem hér er um deilt, fórst honum ekki hefur, því að hann ætlaði að sanna, að óheppilegt væri að hafa tvö byggingarfélög í kaupstöðum úti á landi, með því, að Hafnarfjörður hefði ráðizt í að byggja 16 íbúðir, og menn gætu sagt sér sjálfir, að skaði hefði verið að skipta þessum l6 íbúðum í tvennt og hafa tvö byggingarfélög. Þá hefði efni orðið dýrara og kostnaður allur meiri. Þetta má til sanns vegar færa. (EmJ: Jæja!) Já, en hv. þm. veit, að það eru hér fleiri aðilar, sem ráða, heldur en byggingarfélögin. Það eru sjóðstjórnirnar, sem hafa það í hendi sér að ráða því, hvort félögin verði fleiri en eitt eða fleiri en tvö. Þessar sannanir hans gera ekkert til þess að sanna réttmæti þessarar breytingar á löggjöfinni.

Hv. þm. Hafnf. sagði rangt frá um stofnun byggingarfélaganna í Hafnarf. Ég vona, að það hafi ekki verið vísvitandi. Það var rangt, þegar hann sagði, að verkamenn í Hafnarf. hefðu stofnað byggingarfélag, en svo hefðu sjálfstæðismenn hlaupið til þess á eftir. Sannleikurinn er sá, að stofnað var byggingarfélag verkamanna í Hafnarf., en svo leið langur tími og félagið gerði ekki neitt. Þá var það, að sjálfstæðismenn sáu fram á, að félagið ætlaði ekki að gera nokkurn skapaðan hlut.