17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

22. mál, verkamannabústaðir

Sigurður Einarsson:

Meðan hv. þm. A.-Húnv. flutti ræðu sína datt mér í hug orðtæki, sem haft er eftir fornrómverskum hershöfðingja: Guð varðveiti mig fyrir vinum mínum, fyrir óvinunum skal ég gæta mín sjálfur. Ef enginn sjálfstæðismaður hefir hugsað eitthvað svipað undir ræðu hv. þm. A.-Hún., þá hefir það verið þess vegna, að þeir hafa ekki munað eftir þessu orðtæki úr Rómverjasögunni. Hv. þm. byrjaði ræðu sína með almennum hugleiðingum, og var sá hluti ræðu hans einna óljósastur. Þar var hann að tala um hlunnindi, sem það opinbera veitti einstaklingnum, og fór svo út frá því að tala um það, hvernig fólkið þyrptist í kaupstaðina. Nú er það öllum mönnum ljóst, hvers vegna fólkið hópast til þessara staða. Við sjávarsíðuna hefir risið upp umsvifameiri atvinnuvegur en þekkzt hefir í sveitum, er þurft hefir á mörgu fólki að halda, og getað boðið því betri kjör. En nú er það svo, að forráðamenn þessara umsvifamiklu atvinnutækja hafa ekki verið jafnaðarmenn, heldur oft og tíðum foringjar flokks þessa hv. þm., foringjar Sjálfstfl. Ef hv. þm. vill því bera sakir á einhvern einstakan flokk vegna uppgangs kaupstaðanna, lægi næst að beina þeim að hans eigin flokki, en ekki mínum. En hv. þm. heldur áfram: Þegar þetta fólk er komið í kaupstaðinn, þá er meira að segja farið að byggja yfir það með aðstoð ríkissjóðs. En hvað er það, sem hv. þm. A.-Húnv. vill að gert sé? Er hann einn þeirra manna, sem byggja von sína um viðreisn landbúnaðarins og afturhvarf fólks í sveitirnar á vaxandi vesöld þess fjölda, sem við sjávarsíðuna býr? Slíkum lausnum þjóðfélagsvandamála neitum við Jafnaðarmenn eindregið. Hið opinbera hjálpar ekki landbúnaðinum með því að bregðast skyldum sínum við þá af þegnum sínum, sem við sjóinn búa. Hv. þm. hélt því ennfremur fram, að þetta fólk hefði lítið sem ekkert að gera. Og svo skildist mér, að hv. þm. fyndist það vera að bíta höfuðið af skömminni, að fara nú, ofan á aðrar náðargjafir, að veita þessu fólki atvinnubótavinnu, svo að því verði líft í kaupstaðnum. Með þetta fyrir augum skýrist margt í afstöðu þessa hv. þm. til málsins. Það er varla von, að hv. þm. viti, að sá hluti bæjarbúa, sem l. þessum er ætlað að vera skjólgarður fyrir, leggur mikla áherzlu á það, að byggingarfélagið verði aðeins eitt. En ég skal upplýsa hv. þm. um það, að ástæðan er sú, að þeir þekkja mæta vel vini og fjandmenn að. Saga málsins sýnir, að það er Alþfl., sem er frumkvöðull þessa máls, forráðamenn hans hafa séð um framkvæmdir þess hingað til, og það er eindreginn vilji verkamannanna, að svo verði einnig framvegis. En það er með þetta mál eins og ótal margt fleira, að loks þegar löggjöfin mætir réttmætum kröfum um endurbætur á högum fólks, rísa upp gamlir og nýir andstæðingar málsins og krefjast hlutdeildar í framkvæmd þess.

Þá vildi ég beina nokkrum orðum til hv. 5. þm. Reykv. Mér þykir engin furða, þó að Sjálfstæðismenn snúist illa við þessu frv., ef það eru fleiri en hann, sem sjá í íbúum verkamannabústaðanna árásarher á sig og flokk sinn. En þetta er mesti misskilningur. Hér er ekki um neinn árásarher að ræða, heldur er þarna alþýðufólk, sem fegins hendi hefir gripið þann möguleika, sem þessi löggjöf gefur þeim til þess að eignast skýli yfir höfuðið. Að allir þeir, sem óskað hefðu eftir að nota sér fríðindi þessara l., eru ekki enn komnir í byggingarfélagið, er ekki af því, sem hér hefir verið haldið fram, að þeir séu á móti sambyggingum. Heldur mun orsökin sú, að þrátt fyrir hámark það, sem l. tilskilja á tekjum félagsmanna, eru þeir margir, sem sitja verða hjá af því að þeir geta ekki lagt fram nægilegt fé til þátttöku. Og þetta er ástæðan til þess, að ákvæði l. um byggingarsjóði verkamanna hefðu ekki komið að notum í hinum smærri kauptúnum úti um land. Þar hafa verið stofnaðir litlir byggingarsjóðir, en ógerningur hefir reynzt að útvega nægilegt lánsfé til starfseminnar. Mér er kunnugt um það, að á ýmsum stöðum eru til dálitlir byggingarsjóðir, og fyrir liggja umsóknir frá mönnum, sem uppfylla ákvæði l., en ekki hefir verið hægt að hjálpa þeim til að byggja, því að lánsféð hefir vantað. En með þeirri breyt., sem nú er gerð á l., er gefin von um það, að þessir litlu byggingarsjóðir muni geta tekið til starfa. Að þeir hafa ekki gert það nú þegar, er af vöntun á lánsfé, en ekki því, sem hv. 3. þm. Reykv. gaf í skyn, að sjóðirnir mundu uppétnir.

Ég get nú látið hér við sitja. En það er áreiðanlega ekki að gera málinu nein skil að benda á það öfugstreymi í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. A.-Húnv. hélt fram, að fólkið þyrpist í kaupstaðina, né það enn hættulegra öfugstreymi, að hans dómi, að hið opinbera hjálpi þessu fólki til þess að eignast þak yfir höfuðið, hvað þá slíka kórvillu sem að láta þetta fólk fá eitthvað að gera. Og með því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir að verði á þessum málum, er búið svo um hnútana, að hlutdrægni kemur ekki til greina.