17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

22. mál, verkamannabústaðir

Emil Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. taldi, að sjóðstjórnirnar gætu sett skilyrði fyrir lánveitingum og útilokað menn frá þeim. Ég veit ekki hvar hann finnur því stað; það er a. m. k. ekki hægt í l. Sami hv. þm. sagði, að Byggingarfélag verkamanna í Hafnarfirði hefði verið svo lengi við lýði án þess að gera nokkuð, að Sjálfstæðismenn hefðu fundið ástæðu til þess að ýta við því. Ég skal gefa þessum hv. þm. þær upplýsingar, að bæði félögin voru stofnuð í einum og sama mánuði. Og þess var farið á leit við sjálfstæðismenn, að þeir frestuðu stofnun félags síns og yrðu í einu félagi með Alþýðuflokksmönnum. En við það var ekki komandi. Ég vil ennfremur afþakka allar upplýsingar frá hv. 3. þm. Reykv. um það, sem gerist í Hafnarfirði. Ég er þar fæddur og hefi verið þar alla mína tíð, og er því vafalaust kunnugra um allar aðstæður þar og viðburði en hv. 3. þm. Reykv., sem ég held að hafi komið til Hafnarfjarðar í fyrsta sinn í vor, og í erindagerðum, sem hann mun sjálfur bezt vita.