09.03.1935
Neðri deild: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég var að doka við til þess að vita, hvort fleiri af hv. þdm. vildu ekki láta til sín heyra og gera grein fyrir sinni skoðun á þessu efni. En úr því að það er ekki, þá ætla ég að segja nokkur orð til frekari áréttingar.

Ræðu hv. þm. A.-Sk. þarf ég ekki að svara, hví að hún var aðeins innlegg í málið handa hv. þdm. til þess að hlæja að, enda þótt hv. þm. Borgf. segðist lítið þurfa að segja til viðbótar því, sem hv. þm. A.-Sk. hefði sagt.

En snertandi það, sem hv. þm. Borgf. sagði, þá kemur þar fram sami skoðanamunurinn og áður, þar sem hann hefir þá trú, að ekki sé hægt að útrýma fjárkláðanum. Það er auðvitað rétt, að það tekst ekki með þrifaböðun, en hann vildi halda því fram, að það gæti ekki heldur tekizt með útrýmingarböðun. Við getum auðvitað hvorugur um það sagt, hvað takast megi, fyrr en reynslan hefir leitt það í ljós. En ef gerð er hin ýtrasta tilraun og ef hún er framkvæmd eftir fróðra manna fyrirsögn, þá eru meiri líkur en ella til þess, að takast megi að losna við kláðann að fullu.

Hv. þm. var að tala um, að sömu öryggisráðstafanir væru í brtt. og í frv., en hann komst þó jafnframt að þeirri niðurstöðu, að ef brtt. yrðu samþ., þá yrði kostnaðurinn miklu minni en ef frv. yrði samþ. Í þessu kemur nú fram mótsögn, og það getur því ekki samrýmzt hvað öðru, því ef öryggisráðstafanirnar eru hinar sömu sem í frv., þá er það auðvitað fjarstæða, að kostnaðurinn geti verið minni.

Hann vék að útrýmingarböðun í Árnessýslu til sönnunar því, hvernig fyrirkomulagið, sem frv. fer fram á, muni reynast. Ef slík útrýmingarböðun hefir fram farið, þá er það augljós hlutur, að hún er ekkert annað en kák, þar sem fjársamgöngur eru á allar hliðar. Það er augljóst, að þó að útrýmingarböðun fari fram á takmörkuðu svæði, þá er sáralítið gagn að því og getur aldrei komið öllu landinu að gagni.

Hv. þm. var að tala um, að í kostnaðinum árið 1934 væri innifalin útrýmingarböðun í Rangárvallasýslu, og skal ég ekkert um það segja. Ég hygg þó, að það sé ekki, því að kostnaðurinn 1933 var 3 þús. kr. meiri. Ef slík útrýmingarböðun hefir farið fram, þá hygg ég, að sá kostnaður sé ógreiddur, en um það getur hv. 1. þm. Rang. gefið upplýsingar.

Hv. þm. var að tala um aukið öryggi við að baða féð í sundþró. En í því er ekki fólgið meira öryggi, en ég skal viðurkenna, að það er þægilegra en í öðrum baðkerum og kostar minna baðlyf. En á annan hátt er það ekkert betra.

Hv. þm. vildi gera mikið úr þeirri hættu, sem fénu stafaði af böðuninni vegna óheilbrigði í fénu. Ég vil þá benda á það, að sumstaðar fer fram tvöföld böðun, og ef hér er um að ræða háska fyrir heilbrigði fénaðarins, þá ætti hann að koma í ljós við þessa tvöföldu böðun. Ef þetta er hættulegt fyrir heilbrigði fénaðarins, þá er það mikil mótsögn hjá hv. þm., þegar hann telur, að hættulaust sé að reka féð á milli bæja upp úr böðuninni. En ef hér er um að ræða hættu fyrir heilbrigði fjárins, þá liggur hún fyrst og fremst í þessari aðferð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að þræta lengur um þetta mál, því að það liggur ljóst fyrir. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um það, hvort taka eigi alvarlega á þessu máli, eða láta það „danka“ í svipuðu horfi og nú er. Ég fullyrði, að í till. hv. þm. Borgf. og meðflm. hans er engin öryggisráðstöfun önnur en sú, að nota á ákveðið baðlyf. Ég skal játa, að það atriði getur haft mikla þýðingu, en þrátt fyrir það er það engan veginn öruggt, að reynsla fáist fyrir því, hvort hægt er að útrýma fjárkláðanum eða ekki.