11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

30. mál, útrýming fjárkláða

Guðbrandur Ísberg:

Í umr. hefir ekki verið minnzt á till. landbn. á þskj. 108. Um þær hefir heldur engin ákvörðun verið tekin á nefndarfundi, en tveimur nm. var falið að gera athugun og breyt. á frv. vegna þess að láðst hafði að ákveða um framkvæmd böðunarinnar í kaupstöðum, þótt hinsvegar væri gert ráð fyrir, að böðun færi fram um land allt. Þessar brtt. lúta því einungis að því.

Hvað snertir brtt. hv. þm. V.-Sk. á þskj. 107, þá er ég henni alveg mótfallinn, og það af þeirri ástæðu, að ég get ekki séð, að ekki megi rannsaka, hvaða svæði óhætt sé að undanskilja böðun. Það hefir verið fullyrt, að fé úr Rangárvallasýslu, og þar hefir verið mikið um kláða, hafi samgang við fé úr Skaftafellssýslum, og þótt ekki hafi orðið vart kláða þar, ef honum er þá ekki leynt, þá getur hann borizt þangað hvenær sem er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta, en vil einungis benda á eina staðreynd. Allsherjarböðun fór hér fram árið 1904, og að kunnugra manna dómi tókst hún svo, að kláði lifði ekki eftir nema á tveim stöðum. Ef þær ráðstafanir hefðu þá verið gerðar og þeim ákvæðum beitt, sem í þessu frv. felast, þannig að tekið hefði verið fyrir hæfilega stórt svæði, þar sem kláðinn kom upp, og baðað að nýju, hefði honum verið útrýmt að fullu og öllu. Þetta var fyrir 30 árum. Þá var notað baðlyf, sem talið er að standi langt að baki þeim tegundum, sem nú eru þekktar. Svo kemur hv. þm. V.-Sk. og segir, að til séu heil héruð, þar sem kláðinn sé svo magnaður, að honum verði ekki útrýmt með neinni böðun. (GSv: Með einni böðun). Hafi hann sagt það, hefir mér misheyrzt, en hitt var óneitanlega í þeim anda, sem andmælendur málsins hafa talað og kom mér það því ekki á óvart, þótt hann notaði svo sterk orð. Þegar rökin brestur, er jafnan gripið til fullyrðinga. (HannJ: Það var ein böðun 1904). Já, og af því að ekki tókst með einni böðun að útrýma kláðanum 1904, er nú gert ráð fyrir tveimur, og þá baða á hæfilega stórum svæðum, til þess að örugg vissa fáist um útrýminguna.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 89, frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Sk., þá ganga þær í þá átt, að færa þetta frv., sem hér liggur fyrir, inn í gildandi l. frá 1914, um þrifaböðun. En þetta frv. hreyfir ekkert við þeim l., og ef farið er að samþ. þar, er komið inn á allt annað svið. (GSv: Má ekki breyta l.?). Ég vil því leggja til, að allar brtt. á þskj. 89 og 107 verði felldar.