27.03.1935
Efri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

30. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er flutt af landbn. Nd. og gekk í gegnum þá deild lítt breytt. Landbn. Ed. hefir athugað frv. og mælir með því, að frv. verði samþ., þótt einstakir nm. áskilji sér rétt til að bera fram eða fylgja brtt. við það. Býst ég við, að sá fyrirvari eigi einkum við eitt atriði í frv., í síðari málsl. 1. gr., sem bætt var inn í frv. í Nd., þar sem heimilað er að undanskilja útrýmingarböðununni þau svæði, þar sem fjárkláða hefir ekki orðið vart síðustu 5 ár. Má því vænta þess, að brtt. um þetta komi fram við 3. umr.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárkláðinn hefir valdið allmiklu tjóni og leiðindum hér á landi undanfarin ár, og mun heldur vera að ágerast. Þetta hefir kostað bæði ríkið og einstaklinga allmikið fé, jafnvel ár eftir ár. Landbn. hefir því litið svo á, að heppilegast vari fyrir þjóðfélagið að hefjast handa um algerða útrýmingu fjárkláðans með allsherjar útrýmingarböðun. Tvennt gæti þó mælt á móti þessu. Annað er kostnaður ríkis og sveitarfélaga, sem hlýtur að verða talsverður í bili, og hitt er óþægindi þau, sem slík böðun gerir einstökum bændum, þar sem sýkin hefir ekki gert vart við sig að ráði.

Um kostnaðinn get ég ekki fullyrt, en því hefir verið slegið fram í Nd., án þess að móti hafi verið mælt, að líklegt væri, að baðlyfin kostuðu 50–70 þús. kr. alls. Af þeirri upphæð á ríkissjóður að greiða helming. Myndi kostnaður hans því nema 25–35 þús. kr. Sýslusjóðir eiga að bera nokkurn kostnað, en þeir bera einnig kostnað af kláðaeftirlitinu, eins og nú er. Kostnaður hreppsfélaga getur ekki orðið tilfinnanlegur. Hinu verður ekki neitað, að slík böðun myndi baka bændum allmikla fyrirhöfn og aukna heyeyðslu. Síðari ástæðan er jafnvel svo rík, að óráðlegt verður að teljast, að leggja út í böðun eftir slæmt sumar. Enda er engin skylda samkv. frv. að láta böðunina fara fram á næsta vetri.

En þegar metið er það, sem mælir með og móti slíkri böðun, verður niðurstaðan sú, að þrátt fyrir alla annmarka sé ekki í það horfandi að láta böðunina fara fram og losa sig með öllu við fjárkláðann, ef unnt er, og því leggur n. til, að frv. sé samþ.

Að vísu verður að játa það, að óvíst er um það, hvort sá tilgangur næst, að útrýma fjárkláðanum með öllu. Laust eftir síðustu aldamót var gerð ein rækileg tilraun til þess að losna við kláðann. Sú tilraun mistókst að nokkru leyti, eins og sest á því, að fjárkláðinn er enn í landinu og fer vaxandi. En þótt hin svonefnda Myklestaðsböðun bæri ekki fullan árangur, þá bar hún þó mikinn árangur. Fjárkláðanum var með öllu útrýmt í mörgum héruðum, þótt síðasti kláðamaurinn yrði ekki drepinn. Verð ég því að segja, að ef sú böðun, sem frv. gerir ráð fyrir, ber eigi minni árangur, þá teldi ég þó betur af stað farið en heima setið. En þó eru nú meiri líkur en þá fyrir fullum árangri af böðuninni. Þekking á þessum efnum hefir farið vaxandi, tæki og aðstaða er betri en þá. Annars var það eitt, sem ég ætla, að hafi verið aðalástæðan til þess, að böðunin mistókst í fyrra skiptið. Ástæðan var sú, að böðunin fór fram á tveimur vetrum, og þótt verðir væru hafðir á takmörkum svæðanna, þá mun það ekki hafa verið fullnægjandi til að varna samgangi hins baðaða og óbaðaða fjár. Ég hefi sérstaka ástæðu til að ætla þetta vegna reynslu úr mínu héraði. Fyrri veturinn var baðað austan Héraðsvatna, en hinn síðari að vestan. Þegar kláðans varð aftur vart í Eyjafirði, mátti rekja slóð hans í Skagafjörð. — Ég sé ekki ástæðu til frekari umr. og óska málinu vísað til 3. umr.