30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

30. mál, útrýming fjárkláða

Páll Hermannsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við frv. þetta. Fyrri brtt. er við 1. gr. frv., þess efnis, að síðari málsl. falli niður, en þar segir svo, að undanskilja megi frá útrýmingarböðun þau svæði á landinu, þar sem kláða hefir ekki orðið vart í sauðfé síðustu 5 árin. Nú skilst mér, að meiningin með frv. þessu sé sú, að taka alveg fyrir rætur fjárkláðans, útrýma honum með böðunum alveg úr landinu. Hvort það megi takast, eru skoðanir manna skiptar um. Á því getur aftur enginn vafi verið, að eigi að ná þessu takmarki með frv., að útrýma fjárkláðanum með öllu, þá er það með ákvæði 1. gr. gert ókleift, því að engar sannanir eru fyrir því, að smitun geti ekki átt sér stað frá þeim héruðum, sem undanþegin kunna að verða baðskyldunni, enda þótt fjárkláða hafi ekki orðið vart þar síðustu 5 árin, því að það er alkunnugt, að kláðinn getur legið niðri um lengri og skemmri tíma. Er því engin trygging fyrir því, að hann geti ekki gosið þar upp þegar minnst vonum varir. Hinsvegar skal ég játa, að þar, sem svo hagar til frá náttúrunnar hendi, eins og t. d. sumstaðar í Skaftafellssýslum, að engar samgöngur á milli sauðfjár við önnur héruð geta átt sér stað, og fjárkláða hefir aldrei orðið þar vart, þá sé sjálfsagt að undanþiggja þau svæði frá útrýmingarböðun.

Verði frv. þetta að lögum, þá verður hér aðeins um heimildarlög að ræða fyrir stj. Mér skilst því, að hún myndi samkv. þeim hafa heimild til þess að undanþiggja frá útrýmingarböðun þau svæði, sem af völdum náttúrunnar eru lokuð frá samgöngum við önnur héruð, þrátt fyrir það, þó að þetta umrædda ákvæði 1. gr. yrði fellt niður. Ef til framkvæmda kæmi um útrýmingarböðun, myndi stj. að sjálfsögðu hafa sér til aðstoðar sérfræðing, sem þá gæti jafnframt leiðbeint henni um það, hvar hagaði svo til, að útrýmingarböðun væri óþörf.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá greinir menn allmjög á um það. hvort hægt sé að útrýma fjárkláðanum algerlega. Sumir telja það ekki hægt, og því beri að herða á þrifaböðunum meira en gert hefir verið, og í þá átt fer frv. á þskj. 131. Flm. þess líta svo á, að fjárkláðanum verði ekki útrýmt, a. m. ekki að svo komnu. Hvernig sem menn annars líta á þetta mál, þá býst ég við, að allir geti verið á einu máli um það, að frv. þetta, a. m. k. eins og 1. gr. þess er orðuð nú, geti ekki orðið til þess, að fjárkláðanum verði útrýmt.

Þá er brtt., sem snertir kostnaðarhlið málsins. Í 4. gr. frv. er svo um mælt, að baðlyfin skuli greiðast að helmingi úr ríkissjóði og að helmingi af fjáreigendum. Þá er og svo um mælt í 6. gr., að takist ekki að útrýma kláðanum við fyrstu böðun, þá skuli tafarlaust fara fram útrýmingarböðun aftur. Það kann nú að vera, að það sé ekki ósanngjarnt að láta fjáreigendur greiða nokkurn hluta af verði baðlyfjanna, þegar ekki þarf að baða nema einu sinni, því að ein böðun má jafnframt teljast þrifaböðun. En fjáreigendur verða að greiða töluvert fyrir utan verð baðlyfjanna, og er sá aukakostnaður sérstaklega fólginn í ýmiskonar útbúningi í sambandi við baðanirnar. Það þurfa að vera baðtæki eða sundþrær á hverju heimili, því að ekki má gera ráð fyrir, að hægt sé að reka féð á milli bæja, þegar um útrýmingarböðun er að ræða. Það myndi ekki þola neinn rekstur. Þá má og gera ráð fyrir, að útrýmingarböðun myndi hafa í för með sér töluvert aukna heyeyðslu umfram venjulega, því að gefa þarf fénu inni á, milli baðananna, og eftir þær. Ennfremur má ganga út frá ýmsum óbeinum kostnaði, svo sem verri heilsu á fénaðinum og þar af leiðandi minni afurðum af honum. Með tilliti til þessa hefi ég látið haldast óbreytt ákvæði 4. gr. um, að fjáreigendur skuli greiða helminginn af baðlyfjakostnaðinum, þegar þeir sleppa með eina böðun fyrir fénað sinn. En þegar svo ber til, að fyrirskipa þarf tvær baðanir, eins og frv. heimilar, þegar þess gerist þörf, þá hefi ég lagt til, að ríkissjóður verði látinn greiða allan kostnaðinn vegna baðlyfjanna í seinni böðunina, því að þá böðun er ekki hægt að telja þrifaböðun, þó að þetta verði samþ., þá býst ég ekki við, að hlutur þeirra, sem fyrir því verða að þurfa að láta tvíbaða fénað sinn, verði of góður samt.

Mer hefir skilizt á nál. landbn., að fyrir henni hafi vakað að bera fram einhverjar breyt. á frv., sem jafnvel myndu ganga í svipaða átt og brtt. mínar. Vænti ég því, að hv. n. styðji brtt. mínar, því að þær eru á fullum rökum byggðar.