16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1033)

44. mál, gæðamerki

Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir haft þetta mál til meðferðar og leggur einróma til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem eru á þskj. 135. Fyrsta brtt. er við 8. gr. frv., að í staðinn fyrir orðið „konunglegri tilskipun“ og „tilskipun“ komi alstaðar í gr. reglugerð. Ennfremur leggur n. til, að á eftir 8. gr. komi ný gr., er verði 9. gr., svo hljóðandi:

Ríkisstj. veitist heimild til að ákveða með auglýsingu, að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningum og samþykktum um vernd iðnaðarréttinda. varðveizlu alþjóðamerkja og iðnaðarmáta, alþjóðaskrásetningu verzlunar- og vörumerkja og samþykktum snertandi takmörkun á fölskum upprunaauglýsingum á verzlunarvörum.

Ennfremur veitist ríkisstj. heimild til að setja með reglugerð önnur ákvæði, er kynnu að vera nauðsynleg, vegna þátttöku í slíkum samningum. — Þar sem framgangur þessa máls í þinginu getur haft verulega þýðingu fyrir einn aðalatvinnuveg þjóðarinnar, vildi ég mælast til þess, að þingið hraðaði afgreiðslu þess, svo að því verði lokið áður en þinginu verður frestað að þessu sinni. Ég óska, að frv. verði vísað til 3. umr.