16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Þetta litla frv. fer fram á það, eins og menn sjá, að vextir af lánum í Söfnunarsjóði Íslands verði lækkaðir um einn af hundraði. Þessi till., sem í frv. felst, er einn liður í þeim aðgerðum að reyna að létta vaxtabyrðarnar, sem hvíla nú á atvinnuvegum þessa lands. Geri ég ráð fyrir, að allir geti orðið sammála um, að þess sé full þörf. Við, sem erum í meiri hl. n., mælum þá líka með því, að þetta frv. verði samþ. við lítum svo á, að þó að þessi vaxtalækkun ætti sér stað, þá mættu samt þeir sjóðir, sem standa nú inni í Söfnunarsjóðnum, og aðrir, sem eiga þar fé, vel við una. Það er í alla staði eðlilegt, að þegar atvinnuvegir landsmanna ganga ekki betur en það, að það fé, sem í þeim stendur, skilar mjög litlum arði eða jafnvel engum, þá hljóti að leiða af því, að arður af peningum, sem hafðir eru á vöxtum, verði líka lægri.

Ég sé, að hv. minni hl. fjhn. hefir í nál. sínu á þskj. 136 lagt áherzlu á það, að Söfnunarsjóður væri ekki lánsstofnun fyrst og fremst, heldur sé hann til þess stofnaður að ávaxta það fé, sem í honum stendur. Þetta er náttúrlega rétt út af fyrir sig. En ég sé þó ekki, að það hreki neitt þær ástæður, sem til þess liggja, að við höldum því fram, að vextina beri að lakka. Það var sú tíðin, áður en þær sjóðstofnanir, sem við höfum nú, þekktust, að þegar gjafafé eða annað fé átti að ávaxta, þá var hér 5 landi ekki nema ein leið til þess, sú, að leggja féð í jarðeignir. Arður af slíku fé fór auðvitað eftir því, hvernig búskapur gekk í landinu. Þegar hann gekk illa, þá vitanlega lækkuðu eftirgjöldin eftir jarðirnar og þar með vextirnir af áðurnefndu fé. Þetta, sem í frv. er farið fram á, er þess vegna ekkert nýtt atriði, gripið úr lausu lofti eða utan við veruleikann. —. Sé ég að svo komnu ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.