16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, er þetta frv. einn liður í þeim till., sem komið hafa fram um það, að létta yfirleitt byrðum á þeim, sem skulda í landinu, og það er náttúrlega æfinlega talið, að það séu atvinnuvegirnir, þó vitanlega eigi þar margir aðrir hlut að máli en þeir, sem fé hafa fengið að láni til þess að leggja ráð í kostnað við framleiðsluna. Það eru einnig margir aðrir, sem njóta lánanna.

Það er nú yfirleitt svo, að ef maður lítur aðeins á aðra hlið einhvers máls, þá er alltaf mjög auðvelt og fljótlegt að færa rök, eins og t. d. þegar sótt er um fjárveitingar til Alþ., þá vantar ekki rökin fyrir því, að þetta og þetta málið sé ákaflega þarft mál, geti orðið að svo eða svo miklu liði, og þar fram eftir götum. Þær eru allar nauðsynlegar þessar vegabætur, sem það og það frv. hljóðar um, brúargerðir, hafnargerðir og símalagningar. Það er einnig talið alveg nauðsynlegt að styrkja þennan námsmann og þessa menningarstofnun, og hvað svo sem það nú er. Ef ekki væru til tvær hliðar á öllum þessum málum, þá væri auðvelt að stjórna, og svo er einnig í þessu máli.

Vaxtalækkun sú, sem hér er farið fram á, hlýtur að koma niður á þeim, sem vextina eiga að taka. Í hverju tilfelli ber á það að líta, hvort rétt þykir að skattleggja þá, sem vaxtanna eiga að njóta, til hagsbóta fyrir hina, sem vextina eiga að greiða. Nú er það svo, að þegar Söfnunarsjóður á að ávaxta það fé, sem honum er falið, og hann hefir vitanlega lánað það út, þá hafa þau lán yfirleitt þótt framúrskarandi hagstæð. Þau hafa verið vaxtalág, og ég hygg, að þau hafi alltaf haldið sér þannig, að þau hafi verið raunverulega þau lengstu lán. Ég skal náttúrlega ekki segja, að það hafi ekki komið fyrir einstöku sinnum, að önnur lán hafi verið ódýrari. En yfirleitt hafa lán úr Söfnunarsjóði þótt svo hagstæð, að vanalega hafa legið fyrir langir listar yfir umsækjendur um lán úr sjóðnum. Ég sótti t. d. einu sinni um lán úr sjóðnum, sem ég aldrei fékk. En mér var þá sagt, að ég yrði að bíða alltaf í 2–21/2 ár til þess að nokkur von væri um, að kæmi að mér um lánveitingu. Þetta út af fyrir sig, hve margir sækja um þessi lán og þurfa að bíða lengi eftir því að fá þau, það sýnir ótvírætt, að þau hafa þótt mjög svo hagstæð. Það er því fjarri því, að þeir menn, sem hér er gerð till. um að ívilna um vaxtakjör á lánum úr þessum sjóði, hafi orðið fyrir nokkrum búsifjum með því að fá þessi lán. Þeir fáu útvöldu, sem þeirra njóta, hafa þau um lengri tíma alveg afborganalaus, svo að þeir þurfa aðeins að standa straum af vöxtunum. Ég verð að segja það, að mér finnst það koma úr hörðustu átt að gera kröfu um, að vextir þessir verði lækkaðir. Það er ákaflega skrítinn skilningur á þessu. T. d. hefir mér verið sagt, að það hafi komið fyrir, að menn, sem hafa haft lengi afborgunarlaus söfnunarsjóðslán, hafi gert kröfu um, að þau yrðu strikuð út, vegna þess að þeir væru búnir að margborga þau með vöxtunum, sem þeir hefðu greitt af þeim.

Þó að menn vildu líta á þessa kröfu, sem hér ræðir um í frv., þá ber þó ekki síður að líta á, hvaða fé um er að ræða og á hverjum þessi vaxtalækkun kemur niður, ég hefi nú hér í höndum nákvæma skrá yfir þetta fé. Það er svo að segja allt fé, sem allra sízt virðist fært að lækka vexti af. Það er fyrst og fremst langmestur hluti þess ellistyrktarsjóðir, ekknasjóðir og sjúkrasjóðir, eða fullkomlega 2/3 hl. alls þess fjár, sem sjóðnum hefir verið falið að ávaxta, og ég gat ekki varizt því að segja í mínu nál., að ég álít það talsverð brjóstheilindi, þegar menn, sem eru þó við sinn atvinnurekstur, geta fengið af sér að reyna að skerða tekjur þessara aðilja, sem hér eiga að njóta vaxtanna, sem eru fullkomlega þess styrks þurfandi, bæði ekkjur, sjúklingar og gamalmenni. Það yrði þá, ef svo væri gert, vissulega byrjað á að skattleggja þá, sem sízt allra á að skattleggja. Mér virðist þá fullt svo sanngjarnt að fara fram á það, að ríkissjóður hlypi undir baggann og borgaði eitthvað af þessum vöxtum, ef þeir menn treysta sér ekki til að gera þeirra full skil, sem lán hafa fengið úr sjóðnum.

Þar næst eru styrktarsjóðir, sem ávaxtaðir eru til styrktar fátækum ungmennum til náms, framfærslusjóðir og svo fé, sem ánafnað hefir verið til ýmissa þarfra hluta. Eru þessir sjóðir alls um 20000 kr. Þá eru 64000 kr. í erfingjarentu Söfnunarsjóðs, og loks eru framfarasjóðir sveita og búnaðarsjóðir. Langmestur hluti af fé því, sem ávaxtað er í Söfnunarsjóði, eru sjóðir, sem alveg tvímælalaust eru í þörfum tilgangi stofnaðir og ætlaðir mönnum, sem menn sízt mundu vilja, ef þeir hugsuðu út í það, skattleggja til að styðja aðra.

Sjóði þessum hefir verið stjórnað þannig, að fyrst framan af var örlítið gjald tekið fyrir að stjórna honum. En nú er þetta gjald ekkert, þannig að þeir, sem fé eiga í honum á vöxtu, njóta allra vaxtanna af því óskertra. Hér er því ekki hægt að höggva í milliliðagróða, svo að þeir, sem eiga að njóta þessa skemmtilega styrks, sem þetta frv. ræðir um, geta vitað það, að hann kemur alveg óskertur á bók þeirra, sem eiga að njóta vaxtanna.

Mér hefir verið sagt, að vextir þessara lána hafi verið lækkaðir um 1/2%, þ. e. a. s., að mönnum hafi verið gefinn kostur á því að borga aðeins 51/2% í vexti af lánunum, ef þeir vildu borga 6% áfram, þannig að 1/2% gangi til afborgana. Þetta virðist notalegt tilboð. Því sagði einn maður, sem fékk svona tilboð, að sér þætti vænt um þetta, því að með þessu væru sér gefnir peningar, ef hann ætti að fá að borga lánið með því, sem samið hefði verið um, að hann borgaði í vexti af láninu.

Það mun því raunverulega ekki verða um nema 1/2% vaxtalækkun að ræða, þó að frv. þetta verði samþ.

Þá vil ég benda á annað atriði, sem sýnir, hve ákaflega óeðlileg eru slík ákvæði sem þessi. Eins og ég get um í nál. mínu og eins og hv. frsm. meiri hl. kom inn á, þá er Söfnunarsjóður Íslands alls ekki lánssjóður fyrst og fremst, heldur í þeim tilgangi stofnaður „að geyma fé, ávaxta það og auka“, samkv. 2. gr. 1. 10. febr. 1888, þó að gripið hafi verið til þessarar aðferðar á meðan ekki voru til innlend verðbréf. Þá var þetta eina aðferðin, að lána það þannig gegn tryggum veðum, til að ávaxta fé, svo framarlega sem sjóðurinn vildi ekki kaupa konungleg ríkisskuldabréf, þ. e. að ávaxta féð með því að lána það öðrum þjóðum. Nú er sjóðstjórnin að hverfa að því að ávaxta féð í bréfum. Og þó að hún kaupi bréfin með sæmilegu verði, þá ávaxtar hún það fé með 6% vöxtum. Ég verð að álíta það hart, ef þetta fé, sem frv. tekur til, á að bera minni arð en það fé, sem ávaxtað er í bréfum, því að alltaf er einhver dálítil áhætta, sem fylgir útlánastarfsemi, jafnvel þó að tryggilega sé búið um lán. Og þó að engin áhætta væri við hana, þá er þar þó alltaf um töluvert meira verk að ræða að sjá um innheimtu á lánum á móts við það að ávaxta verðbréf, þar sem ekki þarf annað en að klippa af arðmiða. Það er því ákaflega einkennilegt, þegar sjóðurinn ávaxtar sumt af fénu í verðbréfum, að þá skuli annað fé, sem hann ávaxtar, eiga að bera 1% minni arð. — Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta atriði frekar. nema sérstakt tilefni gefist til. En Söfnunarsjóður hefir satt að segja í sínum ráðstöfunum hagað sér þannig fram að þessu, að engin ástæða er til þess að ætla, að hann verði hér eftir nein okurstofnun. Hann hefir vitanlega hækkað vexti, þegar vextir hafa yfirleitt hækkað í landinu, en haldið sér þó jafnan við það að vera einhver hagkvæmasta lánsstofnun í landinu, þó að segja megi e. t. v., að hann hafi verið eitthvað ofurlítið á eftir með sínar breyt. stundum. En fari vaxtafótur yfirleitt niður, þá er engin hætta á öðru en að Söfnunarsjóður fylgist þar með, að svo miklu leyti sem hann fæst við útlánastarfsemi í framtíðinni. Eins og ég hefi tekið fram í nál. mínu, legg ég því til, að frv. þetta verði fellt.