16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson.):

Ég get að mestu leyti fallið frá orðinu, því að samþm. minn hefir tekið fram mest af því, sem ástæða var til að segja. Þó vil ég geta þess, út af því, sem hv. þm. Dal. vek að, hvort ekki væri rétt að láta ákvæði frv. ná einungis til landbúnaðarlána, að ég vil ekki taka afstöðu til þessa ákvæðis nú við þessa umr., en tel sjálfsagt, að n. taki það til athugunar milli umr. Á hinn bóginn sé ég nokkurn örðugleika á því að skipta lánunum svo, að þau verði með mismunandi kjörum. En hvort þeir örðugleikar eru svo miklir, að þeir útiloki, að ég geti orðið með till. í þessa átt, vil ég ekki segja um nú.

Því hefir verið haldið fram, að með frv. væri gengið á rétt þeirra sem eiga fé í Söfnunarsjóði. Hv. 10. landsk. sagði, að gengið væri á rétt þeirra, sem erfiðast ættu, gamalmenna, ekkna, fátækra námsmanna o. s. frv., því að í Söfnunarsjóði væru ýmsir sjóðir, sem styrktu þessa aðilja. En með þessu frv. er ekki farið fram á að draga úr vöxtum, sem sjóðurinn tekur, frá því, sem áður var, þegar hann var stofnaður og þegar flestir sjóðirnir í Söfnunarsjóði voru þangað látnir.

Hv. 1. þm. Reykv. fannst það orðaleikur, hvort verið væri að skattleggja eða ekki, og hvernig þá. En hann hélt því þó fram, að verið væri að skattleggja eigendur fjárins í Söfnunarsjóði. Samþm. minn vek að skyldu efni, svo að ég fer ekki um það mörgum orðum, þó að gaman væri að athuga það nokkru nánar, t. d. hvað hefir verið gert við það fé, sem tekið hefir verið að láni úr ræktunarsjóði, og hvort það fé gefur hærri vexti en þeir vextir eru, sem Söfnunarsjóður fær. Mér finnst, að engu síður mætti segja, að lántakendur borgi einskonar skatt til ekkna, gamalmenna og annara, sem hér hefir verið um rætt.

Ég veit ekki um hagi hv. 1. þm. Reykv. En ég get vel hugsað mér hvorttveggja, að hann skuldi í Söfnunarsjóði og eigi hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands. Þá mætti líta svo á, að til þess að geta eignast hlutabréf í Eimskipafélagi Íslands, hefði hann tekið lán í Söfnunarsjóði. Það þótti um tíma álitlegt að eiga bréf í Eimskipafélagi Íslands, og enginn neitar því, að félagið geri þjóðinni gagn. En hvað mikil eign verður í þessum hlutabréfum? Og þó ekki sé tekið þetta dæmi, þarf ekki nema að eiga fé í búrekstri, mótorbát eða slíku. Hvaða vexti gefur það?

Hv. 1. þm. Reykv. nefndi áðan eðlilega rentu. Ef við gætum fundið rétt, hvað væri eðlileg renta af peningum, þá mætti segja, að ef farið væri fram á, að Söfnunarsjóður lánaði fé fyrir lægra en eðlilega rentu, þá væri verið að skattleggja eigendur fjárins, og öfugt, ef hann lánaði fyrir hærra. En hvað er eðlileg renta af peningum nú? Út frá skoðun hv. þm. í viðskiptamálum myndi hann svara þannig, að eðlileg renta væri sú, sem boðin sé, ef lán er að fá. Ég veit ekki nema hægt væri að lána fé með meira en 6% vöxtum. Hví þá ekki út frá hans hugsun að láta vexti Söfnunarsjóðs stiga upp í 8% eða 10%, því ég býst við, að lánið gengi samt út. En ef litið er á, að fé renti sig í fyrirtækjum, þá hygg ég, að ekki sé farið niður fyrir eðlilega rentu, þó að þetta frv. verði samþ.

Það er auðvitað atriði til athugunar, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir minnzt á, að hætta sé á, að stjórnendur sjóðsins segi lánunum upp, ef þetta frv. yrði lögtekið, ég álít samt, að þar sem stjórn sjóðsins eru þingkosnir menn, þá hafi þeir verið kosnir með fleira fyrir augum en það, að hafa sem mest upp fyrir Söfnunarsjóð. En sé ástaða til að óttast þetta, þá mætti bæta inn í frv. ákvæði um það, að ekki mætti segja lánunum upp fyrir þessar sakir. Ég þakka fyrir þessa bendingu, og vil ég athuga fyrir 3. umr., hvort ástæða muni til að setja svona ákvæði inn í frv.