16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það eru farnar að verða langar umr. um annað eins smámál og þetta er, því að þar sem hér ræðir um vaxtalækkun, sem ekki nemur nema 1/2% þá er þetta orðið hlægilega smátt mál, sem ekki er ástæða til að streitast fast með eða móti. En ég verð að svara sérstaklega hv. 2. þm. Eyf., því að hann kom fram með nokkur atriði, sem ég get ekki fallizt á. En hann er nú bara ekki við, og vil ég því fresta því, þangað til hann kemur, en minnast fyrst á atriði, sem ég gleymdi áðan, viðvíkjandi því að takmarka vaxtalækkunina eingöngu við lán gegn jarðarveði, eða landbúnaðarlán. Ég held, að það verði erfitt í reyndinni að framkvæma þetta, og er auk þess óeðlilegt að hafa mismunandi vexti við sömu stofnun. Ég held þá, að stjórn sjóðsins myndi verða að lækka alla vexti til þess að sleppa við þessa vafasömu greiningu á lánum til landbúnaðar og lánum til kaupstaða.

Frsm. meiri hl. stakk upp á því síðast í ræðu inni, að setja ákvæði inn í frv. þess efnis, að sjóðsstjórnin mætti ekki segja upp lánum. Ég er ekki lögfræðingur og er sjálfur ekki fær um að skera úr, hvort hægt er að rifta gerðum samningum með löggjöf. Ég tel ekki óhugsanlegt, að það mætti, og löggjafarvaldið gæti þannig gripið aftur fyrir sig. En þá held ég mönnum félli nú allur ketill í eld að ávaxta fé í þessum sjóði, ef fyrst ætti að lána féð fyrir lægri vexti en hægt er að fá í tryggustu verðbréfum, en skylda samt sjóðsstjórnina til að ávaxta féð þar, eða binda m. ö. o. hendur hennar, svo að hún verði að halda lægri vöxtunum, hér kemur skýrt fram það ofríki, sem borið hefir á á síðustu þingum. Ef menn fá eitthvað í höfuðið, þá er að fjötra ráð með lögvaldi, og herða svo að öllum stofnunum, þangað til gengið er af þeim dauðum.

Hv. 2. þm. Eyf. er ennþá ekki kominn, en ég verð þó að svara honum. Hann sagði, að með því að Söfnunarsjóður keypti verðbréf, þá gerði hann sig að millilið um lánastarfsemi. Þetta er undarleg skoðun hjá hv. þm. Það er einmitt þvert á móti. Í stað þess að lána beint, skýtur hann millilið milli sín og þeirra, sem lánin taka, og tryggir sig þannig betur. Ég held þetta hafi hlotið að vera mismæli hjá hv. þm. það á einmitt ekkert að vera tryggara en slík verðbréf. Í landslögum og í lögum einstakra félaga er ákveðið, að það, sem ekki á að mega bregðast nema allt bregðist, skuli ávaxtast í verðbréfum, svo sem varasjóðir. En þar með eru ekki varasjóðir gerðir að milliliðum. Langt frá því, heldur er millilið skotið inn til tryggingar.

Þm. sagði, að ef það brygðist, sem á bak við stæði, þá töpuðust lánin. Já, ef allt bregzt, þá bregzt líka allt.

Í veðdeildunum er skotið milli lánveitanda og lántakanda varasjóði, nefnilega sjálfum ríkissjóði. Það er sama og ríkisábyrgð. Þar er öllu skotið á milli, sem til er á Íslandi, svo að féð tapist ekki. Það er því ekkert berandi saman við það að lána gegn tryggustu verðbréfum. En náttúrlega, ef allt tapast, þá tapast líka allt.

Þm. varði lögum ræðutíma til að andmæla því, sem ég sagði, að lán úr Söfnunarsjóði hafi verið framúrskarandi hagstæð. Ef ég hefi sagt, að þau hafi verið framúrskarandi hagstæð, þá hefi ég átt við, að þau væru hin hagstæðustu lán, sem eru þau hagstæðustu. Og þar sem Söfnunarsjóður hefir lánað með nokkuð lægri vöxtum en veðdeildirnar, þá kalla ég það framúrskarandi hagstæð lán. Og það, að mikill fjöldi manna situr um að fá þessi lán, er bezta sönnunin um, að þau eru framúrskarandi hagstæð. Enda kemst hv. þm. alstaðar í bendu með þennan hugsunarhátt. Ef lánin væru ekki hagstæð, hví fara menn þá ekki í veðdeildirnar? þar standa opnir flokkarnir, svo að hægt er jafnvel að fá milljónir. Hví segja menn ekki upp lánum Söfnunarsjóðs og ganga inn í veðdeildirnar? Söfnunarsjóður væri feginn að fá sín lán inn, og ef hin lánin væri svo mjög hagstæð, þá hefði menn tekið þau, og borgað upp Söfnunarsjóði. Nei, þm. er í bendu. Lán Söfnunarsjóðs eru mjög hagstæð, en bara ekki út frá þeim hugsunarhætti, að ekki ætti að borga lán.

Báðir hv. þm. Eyf. deila á mig fyrir skoðanir mínar á vöxtum. Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ekki væri hægt að segja til um, hvað sé eðlileg renta, þá vil ég taka dæmi. Ég á skuldlaust hús í Reykjavík. Ég sel það og leigi annað í staðinn. Hvað eru þá eðlilegir vextir af því? Ég vil fá það, sem kostar að búa í leiguíbúðinni. (BSt: En ef þm. kaupir jörð, hvað eru þá eðlilegir vextir af jarðarverðinu?). Það fer eftir því, hvernig mér gengur búskapurinn. (BSt: Já, ætli það ekki!). En þá kemur að því, sem vitað er, að það getur ekki annað ákveðið sanngjarna vexti en eftirspurnin. Hverjir hafa vit á því, hvað eru eðlilegir vextir, nema þeir, sem ætla sér að nota féð? Hver ætti að geta sagt um það nema einn, hvað eru eðlilegir vextir af jörð, þ. e. sá, sem kaupir hana? Til hvers er ég að taka lán, ef ég ekki vona að það beri þann arð, sem ég hefi óskað? Sumir geta farið óhyggilega að, þannig að fyrirtækið gefi ekki það af sér, sem búizt var viti. En hverjir eiga þá að ákveða vextina? Reynslan hefir sýnt, að vextir fara upp og niður, eftir því hvað spurt er eftir þeim, hvernig árferði er o. s. frv. Ég veit ekki, hverjir ættu að taka lán með 8%–10%, eins og hv. þm. stakk upp á. Það er auðvitað fjarstæða að halda, að Söfnunarsjóður gæti farið upp í svo háa vexti, þegar kostur er á tryggustu lánum úr veðdeild fyrir lægri vexti.

Það er bezt fyrir menn að sleppa þessu og, viðurkenna, að vextir Söfnunarsjóðs eru hagfelldastir af þeim vöxtum, sem fengizt hafa. Og bezta sönnunin fyrir því er það, að menn taka ekki veðdeildarlán til þess að borga hin upp.

Hv. 2. þm. Evf. sagði, að það væri ekki heppilegt fyrir sjóðinn að segja nú upp lánunum og ganga að jörðunum. Er það ekki ein sönnun þess, að ekki sé áhættulaust fyrir eigendur peninganna að eiga fé sitt þar? Jarðarveð geta verið óseljanleg nema festa peningana í nýjum lánum aftur. En hitt er annað mál, hvort hlýzt nokkur trygging í niðurfærslu vaxtanna, þannig að allir geti þá staðið vel í skilum.

Það er náttúrlega mjög erfitt að segja um það, hvað eru réttir vextir, við getum sagt, að það megi vera 4% nú, — en hvar á þá að nema staðar? Það hefir verið bent á hér, að sjóðsstjórninni gæti ekki legið í léttu sinni, hvernig veltist. Hún á að hugsa um hag sjóðsins og hugsar um, hvernig hann megi tryggja sem bezt, þannig að sjóðurinn fái fé til geymslu og unnt sé að ávaxta það fé á tryggan hátt. Eðlilega langar hana til að geta eins háa vexti og hægt er, svo menn vilji geyma og ávaxta fé sitt í sjóðnum. Eðlileg afleiðing af frv. þessu er sú, að sjóðsstjórnin losaði sig við beina útlánastarfsemi, en tæki samt sem áður þátt í útlánastarfseminni með því að kaupa vaxtabréf, en á ekki jafnhægt með að beina fé sjóðsins þangað, er hún vill helzt. Eftir upplýsingum frá form. sjóðsins hefir því aðallega verið beint í sveitirnar, með því að kaupa jarðræktarbréf, og ég tel það mjög eðlilegt, að sjóðsstjórnin kaupi trygg verðbréf. Ég er viss um, að landbúnaðinum væri það hentugra, að Söfnunarsjóðurinn væri allur ávaxtaður í jarðræktarbréfum, heldur en að knýja niður vextina um 1/2%. Væri það áreiðanlega ólíkt heilbrigðara en að skaða þá, sem eiga fé sitt ávaxtað í Söfnunarsjóði.