16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Pétur Magnússon:

Ég verð að segja að röksemdafærsla hv. þm. Eyf., sem þeir hafa fært fram fyrir máli þessu, er sú allra einkennilegasta, sem ég hefi nokkru sinni heyrt hér á þingi.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er hér farið fram á að lögfesta, að hámarksvextir af lánum Söfnunarsjóðs skuli vera 5%, í stað þess, að áður var þetta óákveðið. Þessir hv. þm. tala um þetta eins og stofna eigi með frv. þessu til almennrar vaxtalækkunar í landinu. Þeir tala um þetta eins og stóran stuðning við atvinnuvegi landsmanna. Fé Söfnunarsjóðs hefir verið um 3 millj. kr., en í veðdeild Landsbankans er fé, sem skiptir tugum milljóna, og er lánað út með 6–8% vöxtum, og hv. þm. Eyf. hafa ekkert við það að athuga. Ræktunarsjóður ræður yfir 3 millj. kr. og lánar út með 6% vöxtum, og ekkert heyrist frá hv. þm. Eyf. um, að þeim þyki það of háir vextir. Ég veit ekki, hvað margar millj. kr. eru í öllum sparisjóðum landsins og ávaxtaðar í lánum með 6–8% ársvöxtum, og hv. þm. Eyf. hafa ekki séð ástæðu til að drepa á það. Svo eru þar að auki allar þær milljónir, sem eru í bönkum landsins. Ég bendi aðeins á þetta til að sýna, að þetta fé, sem hér um ræðir, er hverfandi hluti af því fé, sem atvinnuvegirnir standa undir og borga vexti af. Hér er því ekki um neina almenna hjálp að ræða til atvinnuveganna, en það má segja, að þetta gæti orðið hagnaður fyrir nokkra menn, sem skulda Söfnunarsjóði, en það er aðeins hverfandi hluti allra lántakenda. Og hinum er ekkert hjálpað með þessu frv. Öðrum lánardrottnum er ekki sett neitt hámark eða takmörk um vaxtakjörin upp á við, og það hafa ekki enn komið fram á Alþingi neinar till. í því efni. Undantekningar frá þessu eru vitanlega þær stofnanir, sem styrktar eru af ríkinu eða eru aðnjótandi sérstakra hlunninda eins og t. d. byggingar- og landnámssjóður. Eðlilega koma slíkar till. ekki fram, því það er ekki hægt að setja slíka löggjöf meðan ríkið og atvinnuvegirnir lifa á erlendu lánsfé, sem greiða verður af 6–8% í vexti. Meðan þjóðin notar erlent fé með slíkum vaxtakjörum, er ekki unnt að takmarka vaxtafótinn með lögum. Þetta sjá allir heilvita menn. Hitt eru allir sammála um, og það þarf ekki að rökræða hér, að vaxtafóturinn er hærri en atvinnuvegirnir þola. Það er búið að draga inn í landið milljónir og aftur milljónir af erlendu fé, sem atvinnuvegirnir eru ekki færir um að standa straum af eða borga svo háa vexti sem krafizt er. Ef við því ætlum að gera okkur vonir um að fá lækkaðan almennan vaxtafót í landinu, er eina ráðið til þess að fá ódýr lán í stað hinna vaxtaháu lána, sem við nú búum við. Á annan hátt er alls ekki um að ræða að létta af atvinnuvegunum þessari tilfinnanlegu byrði. Það er ekki annað en herfilegasta rökvilla, þegar hv. þm. Eyf. er að tala um hjálp fyrir atvinnuvegina, þó lækkaðir séu vextir af lánum Söfnunarsjóðs.

Það liggur nú hér fyrir þinginu frv. um að ríkissjóður taki þátt í vaxtabyrði landbúnaðarins á þá lund að lækka vexti af landbúnaðarlánunum niður í 5%. Ég held, að það sé engin ástæða til að lækka vexti af lánum þeim, sem hvíla á húsum hér í bænum, sem eru eitt af því fáa, sem getur enn svarað vöxtum. Þetta frv. um lækkun vaxtanna, eða réttara sagt breytingu þeirra með aðstoð eða styrk úr ríkissjóði, efast ég ekki um, að nái fram að ganga, því ég tel vafasamt, að nokkur þm. treysti sér til að beita sér gegn því, eða sjái sér það fært, þó að þessi bráðabirgðalausn sé að ýmsu leyti vandræðaúrlausn. Það sér því hver maður, að frv. þetta, er hér liggur fyrir, er ekki borið fram til að létta á framleiðslunni, heldur til að létta af ríkissjóði. — Ef vextirnir héldust í 51/2% eins og nú er, mundi ríkissjóður verða að taka að sér 1/2% samkv. frv. um breyt. á fasteignaveðslánum landbúnaðarins. Það er því ekkert annað, sem fyrir liggur, en að létta af ríkissjóði þessari greiðslu, á kostnað þeirra sjóða, sem standa í Söfnunarsjóði, sem aðallega er ellistyrktarsjóðurinn o. fl. smærri styrktarsjóðir. En því miður er frv. þetta ekki svo vel undirbúið, að það sjáist, hve sú upphæð nemur miklu. Það er því fullkomlega rétt að halda því fram, að eins vel mætti skattleggja sjóðina til ágóða fyrir ríkissjóð á þann hátt að láta þá greiða 1/2 % í vaxtaskatt. Hagur beggja aðilja væri þá óbreyttur. Það væri því nákvæmlega sama, hvor leiðin væri farin. Það hefir verið talað um, hvaða afleiðingar slík löggjöf sem hér um ræðir, gæti haft, af samþ. yrði. Það er enginn efi á, að Söfnunarsjóður mundi draga inn lán sín, segja þeim upp svo fljótt, sem hægt væri, og verja fé sínu til verðbréfakaupa. Hv. 2. þm. Eyf. taldi það hálfgerðan glæp, ef sjóðstjórnin gengi inn á þá braut. Hv. 1. þm. Eyf. tók ekki eins djúpt í árinni, en hann taldi það þó lítið þjóðþrifaverk. Ég efast ekki um, að sjóðsstjórnin gerir þetta, án þess þó að ég geri ráð fyrir, að hún geri sér leik að því að ganga að mönnum og selja jarðir þeirra, heldur innheimti eins og aðrar lánsstofnanir með lægni. En hún mundi draga inn lán sjóðsins eins ört og hún sæi sér fært, og ég álít það líka hreint og beint skyldu sjóðsstjórnarinnar. Söfnunarsjóður hefir það hlutverk að ávaxta fé á tryggan hátt, og þarf því ekki að reka beina útlánastarfsemi. En það hefir verið gert, vegna þess að um langan tíma var ekki hægt að ávaxta fé á annan eins hagkvæman hátt. En nú er hægt að ávaxta féð á fulltryggan hátt með því að kaupa verðbréf, og það verðbréf eða bankavaxtabréf, sem eru útgefin af þjóðbanka landsins. Ég sé ekki, hvernig hægt væri að vita sjóðsstjórnina, þó hún notaði fé það, er hún hefir handa á milli, til að kaupa verðbréf þjóðbankans. Það hefir verið talað um, að sjóðstj. ætti ekki að hugsa eingöngu um háa vexti, heldur líka um hag almennings. Það er rétt, að ekki á eingöngu að hugsa um háa vexti, heldur líka að ávaxtað sé á tryggilegan hátt, og náttúrlega líka, að féð gangi til þeirra fyrirtækja, sem rétt eiga á sér.

Það er vitað, að sjóðsstjórnin hefir hækkað gengi veðdeildarbréfanna úr 75–80, og er það vitanlega nokkurs virði, þó ekki tækist að koma þeim upp í nafnverð, m. a. vegna þess, að hún réð yfir takmarkaðri fjárupphæð. Hitt er ómótmælanlegt, og því hefir enginn reynt að mæla á móti, að það verða að teljast eðlilegir vextir á hverjum tíma, sem veðdeildarbréf Landsbankans gefa af sér, eða svo ætti a. m. k. að vera. (BSt: Hvað eru þeir?). Ég hefi það ekki hér skjalfest hjá mér, en þeir eru sennilega 61/2%. (JAJ: Þeir eru 6,75%). Hitt skal játað, að allt of lítið hefir verið gert til að halda veðdeildarbréfunum í gengi, fram yfir það, sem Söfnunarsjóður hefir gert. Það hefir verið minnzt á það hér, að hægt væri að banna Söfnunarsjóði að segja upp lánum sínum. Ég held, að hv. þdm. hljóti að vera ljóst, hvílík fásinna slíkt væri. Og í rauninni ætti ekki að vera þörf að ræða slíka fásinnu hér. Það væri sama sem að Alþ. tæki stjórn sjóðsins í sínar hendur, og ég fæ ekki séð, hvaða menn væru líklegir til að vilja lána nöfn sín til að leppa sjóðsstjórnina fyrir Alþingi. Ég held, að það gæfi sig enginn í það; a. m. k. myndu þeir sömu ekki vera heppilegir stjórnendur slíkrar stofnunar. Ég þykist hafa leitt rök að því, að hér er aðeins um það að ræða að létta af ríkissjóði á kostnað Söfnunarsjóðsins, eða þeirra sjóða, sem ávaxta fé sitt í honum. Hvort ástand ríkissjóðs er orðið svo bágborið, að nauðsynlegt sé að éta upp ellistyrktarsjóðinn, skal ég ekki segja, en ef svo er, þá held ég, að þörf sé á að athuga eitthvað fleira á þessu þingi en vexti Söfnunarsjóðs.