18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Það var svo mikið rætt um þetta mál við 2. umr., að mér finnst ekki þörf á því að framlengja þessar umr. mikið, og ætla ég þess vegna aðeins að segja örfá orð.

Hv. þm. N.-Ísf. gat þess, að Söfnunarsjóður væri búinn að taka þá ákvörðun að hætta útlánum úr sjóðnum og kaupa verðbréf í staðinn. En þetta frv. hefir fulla þýðingu fyrir því, vegna þeirra, sem nú skulda sjóðnum. Hv. þm. talaði um, að sjóðurinn gerði gagn með því að halda uppi verði á verðbréfunum, og vil ég ekkert úr því draga. En þar sem hann hefir þegar unnið að því að hækka verð veðdeildarbréfa t. d., þá sé ég ekki annað en að hann geti það eftir sem áður, þótt þetta frv. verði samþykkt.

Verði þetta frv. til þess, að hann veiti ekki fleiri lán, er það þá til bjargar þeim mönnum, sem sjóðnum skulda. Og ef samþ. verður vaxtatillag á fasteignaveðslánum bænda, sparar það ríkissjóði nokkur útgjöld. Við teljum það rétt.

Hv. þm. sagði, að þetta miðaði að því, að sjóðurinn hætti öllum útlánum. En mér skildist á honum, að þegar væri búið að taka þá ákvörðun að hætta útlánum, svo að frv. getur þá ekki héðan af gert neinn skaða í þá átt.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að menn myndu skirrast við að kveða svo á, að sjóðir þeir, er þeir stofnuðu, skyldu ávaxtast í Söfnunarsjóði, ef frv. þetta næði samþykki. Þetta á ég örðugt um að skilja, því að frv. miðar ekki að því að gera fé sjóðsins ótryggara en áður, og ég hygg, að það, sem aðallega vakir fyrir mönnum, er sjóði stofna og ákveða, að þeir skuli ávaxtast í Söfnunarsjóði, sé þetta, að Söfnunarsjóður sé tryggasti geymslustaður fjár, sem völ er á hér á landi. Vextir af innlánsfé eru ekki heldur hærri annarsstaðar heldur en þeir geta orðið í Söfnunarsjóði, þó þetta frv. verði samþ., og því ástæðulaust af þeirri ástæðu að vilja ekki ávaxta fé í honum. Og þó að samþykkt frv. hefði þær afleiðingar, að lánveitingum yrði hætt, en í þess stað keypt trygg verðbréf, þá sé ég ekki, að það dragi úr öryggi Söfnunarsjóðs. Annars munar ekki nema 1/2% á því, sem sjóðurinn er nú farinn að taka í vexti, og því, sem frv. ætlast til.

Það eru til sjóðir, sem hafðir eru á sparisjóðsbók og ávaxtaðir í sparisjóðum. Ég þekki slíka sjóði. Þó að frv. yrði samþ., er hér samt um nokkru hærri vexti að ræða en þá, sem sparisjóðir veita, og tryggari ávöxtun.

Annars þýðir ekki að þrátta lengi um þetta, svo smátt mál sem það er. Mun ég því hér eftir láta umr. að mestu afskiptalausar.

Um brtt. hv. 10. landsk. á þskj. 173 mun ég ekki fara mörgum orðum. Það var rétt, sem hann sagði, að fyrir okkur flm. vekti fyrst og fremst að bæta vaxtakjör landbúnaðarins. En ég get samt ekki neitað því, að mér finnst óviðfelldið að skipta vöxtum við sömu lánsstofnun þannig, að hafa 1/2% hærri vexti, ef lánin eru í kaupstað en ef þau eru í sveit. Þetta er ekki mikið atriði og mun ég ekki leggjast fast á móti því, en dálítið þykir mér þetta þó óviðkunnanlegt.