04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þessari fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ummæli þau, sem fóru fram á milli stj. og umboðsmanns hennar í London annarsvegar, og stjórnar Englandsbanka hinsvegar í sambandi við lántökuna, bera það með sér, að ríkisstj. ætlar að halda fast við þá stefnu, að forðast lántökur erlendis og skuldbindingar, á meðan gjaldeyrisástandið er jafnslæmt og það er nú. Það gildir því alveg sama um lántökuheimild þá, sem í frv. er, og aðrar lántökuheimildir, að stj. mun ekki nota hana til lántöku erlendis, fyrr en gjaldeyrisástandið hefir batnað svo, að stj. telji forsvaranlegt að bæta við nýjum lántökum. Hinsvegar sé ég ekkert á móti því, að lánsheimild þessi standi í frv., því að hún er líka miðuð við innlend lán, sem alls ekki er útilokað að fá, og mætti nota árlega til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar.