04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Reykv. sagðist hafa vitað, að svona myndi fara, „að við myndum ekki verða sjálfráðir gerða okkar út á við“, eins og hann orðaði það. Ég skal ekki fara mikið út í að ræða þetta hér, en ég vil aðeins benda þessum hv. þm. á, að það hefði óneitanlega verið æskilegt, að hann hefði notað aðstöðu sína í Sjálfstfl. sem stuðningsmaður fyrrv. stj. tvö undanfarin ár til þess, að slíkt ástand, sem nú er um gjaldeyrismálin o. fl., myndaðist ekki. Það hefði óneitanlega verið viðkunnanlegra af honum heldur en að þjóta nú upp eftir á og gera sig breiðan og þykjast hafa séð þetta og hitt fyrirfram.

Hv. þm. veit það því vel, að það ástand, sem gjaldeyrismálin eru komin í, er ekki núv. stj. að kenna. Það var ekki hún, sem ákvað innflutninginn 1934. Hv. þm. ætti því að beina skeytum sínum til þeirra, sem sökina eiga í því, hvernig komið er, manna, sem standa honum nær og sitja honum nær en við.

Hann spurði, hv. þm., hverjir það væru, sem ræðu því, hvenær nota mætti lánsheimild þá, sem frv. ræðir um. Vitanlega er það íslenzka stjórnin, sem segir til um það, og hvað núv. stj. snertir. Þá hefir hann lýst því yfir, að hún muni forðast erlendar skuldbindingar á meðan gjaldeyrisástandið er eins og það er nú, og hún mun standa fast með þá stefnu, sem hún hefir tekið í því máli sem öðru.