04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég kom hér að og heyrði minn ágæta vin, hv. 1. þm. Reykv., vera að tala um ensku lántökuna og ýms vandræði, sem hann sá í sambandi við hana. Ég vildi því nota tækifærið til þess að rifja dálítið upp fyrir honum.

Það, sem talað var um á lokuðum þingfundi, þar sem kommúnistar höfðu engan fulltrúa, var ekki eðlilegt, að kæmi fyrst fram í blaði þeirra. En þegar hæstv. fjmrh. spurði hv. 1. þm. Reykv., hvers vegna hann blandi þessum efnum inn í umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, þá svarar þessi hv. þm. því, að ég hafi gefið Árna Pálssyni upplýsingar frá þessum lokaða þingfundi viðvíkjandi lántökunni, á fundi menntamálaráðs í kennslustofu í menntaskólanum. Af því það er tilhæfulaust, að ég hafi þar eða annarsstaðar talað við Árna Pálsson um ríkisleyndarmál, þá spurði ég Árna, hvort hv. 1. þm. Reykv. hefði þetta rétt eftir honum, og sagði hann það ekki vera. Árni Pálsson reyndi þá að hringja á Magnús Jónsson, en hann var fyrst á tali, eins og oft á sér stað um þessa miklu menn, en svo þegar Árni náði samtali við hann, þá varð ég óviljandi heyrnarvottur að því, að Árni Pálsson sagði við Magnús Jónsson, að þetta væri tóm vitleysa og alls ekki eftir sér haft, því ég hefði ekkert sagt sér um þetta, og þótti honum það leiðinlegt, að Magnús Jónsson skyldi bera sig fyrir slíkum söguburði, sérstaklega af því að Morgunblaðið flutti svo söguna eftir Magnúsi Jónssyni. Ég vil af þessu ráða hv. þm. til þess að vera nákvæmari en þetta með sögulegar heimildir, því annars held ég að farið gæti illa fyrir honum.