04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég veit ekki, hvort ástaða er til að lengja umr. um það, hverjum sé um að kenna fjármálaóreiðu fyrri ára; ég ætla að leiða það hjá mér að þessu sinni. En það var hv. 1. þm. Reykv., sem var að spyrja um það, hvort stj. sú, er nú situr, ætlaði að halda áfram sömu fjármálaóreiðunni og áður, þrátt fyrir þessa síðustu lántöku. Síðan skipti hann þó um tón og fór að tala um óreiðu fyrrv. stjórnar Framsfl. og að hún eigi alla sökina. Slíkum og þvílíkum fullyrðingum hefir svo oft verið mótmælt með rökum, að ég hirði ekki um að fara út í það hér. Það, sem ég sagði, en hv. þm. hafði rangt eftir, var, að Sjálfstfl. hefði verið samábyrgur um fjármálastjórn tveggja síðustu ára, og að ég hefði kunnað betur við, að þessi hv. þm. hefði þá reynt að beita sínum áhrifum til þess að bæta þá stjórn, meðan hann hafði aðstöðu til þess, heldur en að vera með skæting til núv. stj. út af meðferð á fjármálunum áður en hún kom til sögunnar.

Þó að ég hafi lýst því yfir, að það væri stefna stj. að forðast erlendar lántökur þangað til gjaldeyrismál þjóðarinnar væru komin á öruggari grundvöll, þá er það vitanlega á valdi stj. að dæma um það, hve lengi þeirri stefnu skuli fylgt og hvenær hægt sé að breyta um stefnu. (MJ: En ef skipt verður um menn í stj.?). Ef það verður gert, þá er það að sjálfsögðu þess fjmrh., sem við tekur, að dæma um það, hvaða stefnu eigi að fylgja á hverjum tíma í þessum efnum, en auðvitað getur það haft sínar afleiðingar, ef svindlað verður á þeirri yfirlýsingu, sem gefin hefir verið. Sú yfirlýsing, sem ég hefi gefið, hefir ekki að nokkru leyti breytt afstöðu okkar til erlendra lánardrottna. Það eina, sem gerzt hefir, er það, að þeir, sem höfðu útboð á láninu í Englandi fyrir okkar hönd, spurðu af eðlilegum ástæðum, hvort það væri meiningin að halda áfram á sömu braut með að safna skuldum erlendis eins og verið hefði, eða hvort breytt yrði um stefnu. Ég held, að frá sjónarmiði allra, sem nokkuð hugsa alvarlega um þau efni, hljóti það að álítast ekkert vit. Hitt er allt öðru máli að gegna, ef kringumstæðurnar batna, þannig að eitthvað rætist úr í verzlunarmálum, en þá er nógur tími til þess að bollaleggja um það, hvort hægt sé að taka aðra stefnu.