11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Pétur Magnússon:

Ég finn ástæðu til að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, sérstaklega af því að ég hefi skrifað undir nál. fyrirvaralaust. — Ég verð að segja það eins og er, að þó þetta frv. sé að nokkru leyti lagfæring á eldri löggjöf um sama efni, þá ætla ég, að það sé fremur þýðingarlítið, að undanskildum III. kaflanum, sem felur í sér ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar. Samkv. þeim kafla er ríkisstj. heimilað að færa hámark vaxta af fasteignaveðslánum bænda niður í 5%. Þetta er vitanlega ákvæði, sem hefir sína þýðingu og komið hefir að gagni undanfarin 2 ár, en þau ár hefir ríkissjóður greitt vaxtatillag af fasteignaveðlánum bænda niður í 41/2%. Þetta hefir vitanlega verið mikil hjálp, þó reynslan hinsvegar hafi sýnt, að jafnvel þeir vextir eru of háir fyrir landbúnaðinn. En þetta er eina atriðið í frv., sem ég er viss um, að getur orðið að gagni fyrir bændur.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að stofnaður verði nýr veðdeildarfl. við Búnaðarbankann og að veðdeildinni verði gert kleift að standa að nokkru leyti sjálf undir greiðslum af vaxtabréfum sínum með því fé, sem greiðist inn af þeim viðlagasjóðslánum, sem fylgdu veðdeildinni. — Og í 3. gr. frv. er stj. heimilað að taka allt að 5 millj. kr. lán, innan lands eða utan, til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar. Nú er það öllum hv. þdm. kunnugt, að í náinni framtíð eru engar líkur til, að slíkt lán muni fást erlendis, og því miður einnig litlar líkur til, að það geti fengizt innan lands. Þess vegna eru þetta aðeins málamyndaráðstafanir. Það sakar máske ekki, þó að þetta standi á pappírnum, en bændunum kemur það ekki að neinu gagni, þó að veðdeildinni sé heimilað að hækka vexti, án þess að líkur séu til, að hún geti það, og þó að heimilað sé að taka 5 millj. kr. lán, sem hvergi er hægt að fá. Þetta er sem sagt aðeins pappírsgagn, sjálfsagt meinlaust, en líka gagnslaust.

Í 6. gr. frv. er ákveðið, að það af viðlagasjóði Íslands, sem er umfram eign veðdeildar Búnaðarbankans, skuli renna til ræktunarsjóðs. Ég veit ekki, hvað sá hluti af viðlagasjóði nemur mikilli upphæð; það hefir ekki farið fram mat á sjóðnum. Ég álít, að það sé mjög hæpin ákvörðun, að láta þetta fé renna til ræktunarsjóðsins. Ræktunarsjóðurinn er orðinn allöflug stofnun og hefir jafnan getað fullnægt eftirspurn lána, nema aðeins part úr ári, en það var haustið 1931; þá stöðvuðust útlán úr sjóðnum um nokkurn tíma. Síðan hefir sjóðurinn alltaf getað fullnægt eftirspurninni og á allverulegan sjóð upp á að hlaupa nú. Hinsvegar er ég vitanlega samþykkur því, að viðlagassjóður sé látinn renna inn í Búnaðarbankann. Ég álít, að það eigi að ráðstafa honum í aðra deild bankans, og þá frekast í sparisjóðs- og rekstrarlánadeildina. Hún hefir meiri þörf fyrir fé. Býst ég við að flytja brtt. um það við 3. umr., að viðlagasjóðurinn verði látinn renna til sparisjóðsdeildarinnar, en ekki í ræktunarsjóð.

Í 10. gr. frv. er gerð ráðstöfun til þess, að stj. Búnaðarbankans skuli heimilt að lengja lánstímann á eldri lánum úr ræktunarsjóði, ef lántakendur óska þess. Náttúrlega gæti það komið til mála að breyta lánstímanum og lengja hann í þeim lánaflokkum, sem ekki er enn búið að opna, þó að ég álíti það mjög vafasama ráðstöfun. Því að það verða menn að gera sér ljóst, að um leið og lengdur verður lánstíminn í ræktunarsjóði og lengri tíma þarf til þess að innleysa vaxtabréfin, þá má gera ráð fyrir, að bréfin seljist ekki nema með afföllum. En hingað til hafa vaxtabréf ræktunarsjóðs selzt áfallalaust að mestu leyti. Hinsvegar álít ég ekkert vit í því að lengja lánstímann í þeim lánaflokkum, sem þegar er búið að stofna. Það væru í raun réttri hrein svik við þá menn og stofnanir, sem keypt hafa jarðræktarbréfin. En það væri bæði rangt og ákaflega varasamt upp á seinni tímann. Bréfaeigendur verða að geta treyst því, að innlausnartíma bréfa hvers flokks verði eigi breytt. Ég býst við að flytja brtt. um það við 3. umr., að síðari liður 10. gr. skuli felldur burt.

Síðasta lið 12. gr. býst ég við, að margir muni skilja þannig, að vextir ræktunarsjóðs eigi að lækka úr 6% niður í 3 eða 41/2%; en hér er ekki um það að ræða, heldur hitt, að bankanum verður ekki heimilt samkv. þessari grein að reikna sér af lánum 1/2% vegna kostnaðar við rekstur ræktunarsjóðs. Þann kostnað á sjóðurinn að greiða sjálfur samkv. þessari grein.

Þess má geta í þessu sambandi, að sjóðurinn hefir hingað til tekið á sig kostnað við bréfasöluna að meira eða minna leyti. Ef sjóðurinn ætti sjálfur að standa alveg undir kostnaðinum við rekstur sinn, yrði sennilega ekki hægt að komast hjá því að láta lántakendur bera kostnaðinn við söluna, og væri þá tekið með annari hendinni það, sem gefið er með hinni.

Annars eru þarna ýmsar leiðréttingar á lögunum, sem gott eitt er um að segja, að fram gangi. En eina verulega efnisbreyt. er þar, sem kveðið er, að bústofnslánadeildin falli burt úr búnaðarbankalögunum, og ég er þeirri breyt. samþykkur, af þeirri ástæðu, að það eru engar og voru aldrei neinar líkur til þess, að sú deild tæki nokkurntíma til starfa. Það var þannig frá henni gengið, að vonlaust var um, að bréf hennar seldust viðunandi verði, og sízt voru líkur til, að þau seldust því verði, sem landbúnaðurinn gæti staðið undir eins og nú er. En flest höfuðatriði frv. tel ég til lítilla eða engra hagsbóta fyrir lánþega þessarar stofnunar, og það, sem gerði það að verkum, að ég vildi ekki setja mig í beina andstöðu við frv., var aðallega ákveðið um vaxtatillagið, og svo að í frv. felast nokkrar lagfæringar á núgildandi löggjöf um þetta efni.