11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Því er nú verr og miður, að þetta frv. er ekki svo vel úr garði gert sem skyldi. E. t. v. eru ákvæði 12. gr. ekki nægilega ljós, en ætlunin er nú samt, að vextir ræktunarsjóðs lækki samkv. því, sem þar segir, og það mun vera rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að þarna þurfi einhverrar lagfæringar við, til þess að slá því alveg föstu, að vaxtalækkun eigi að eiga sér stað.

Í flestum gr. frv. er ákaflega lítið, sem að gagni kemur, um aukið fjármagn til landbúnaðarins. T. d. er í 14. gr. gert ráð fyrir að nota fé ýmsra stofnana og sjóða nokkuð meira en nú er til að kaupa bréf ræktunarsjóðs. En það er nokkuð hæpin leið, því þetta fé er þá tekið úr öðrum útlánum þessara sömu stofnana og sett í bréfin. Lántökuheimildin í 3. gr. væri náttúrlega gagnleg, ef nokkur leið væri að fá lán með lægri vöxtum heldur en nú hafa verið fengin til Búnaðarbankans og ræktunarsjóðs, en ég held það sé mjög hæpið eins og nú standa sakir. Þar fyrir þarf ekki svo að verða endalaust; það getur rætzt úr þessu voðalega ástandi síðar meir.

Þá vil ég vekja athygli á því, að með þessu frv. er verið að gefa Búnaðarbankanum um tvær millj. króna, þar sem er viðlagasjóðurinn gamli. (PM: Það er ekki nálægt því svo mikið.) Að nafnverði. Nokkuð af þessu á að leggja til ræktunarsjóðsins, um 700 þús. að því er talið er. En það mun vera rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að mikið af þessu fé mun aldrei koma inn í bankann, því nokkuð af því er sjálfsagt tapaðar skuldir. Viðlagasjóðslánin gömlu fást vafalaust aldrei nærri því öll inn.

Ég mun þó greiða atkv. með því, að frv. fái að ganga áfram, en eins og tekið hefir verið fram, hefi ég óbundnar hendur um að bera fram eða fylgja brtt. Og að gefnu tilefni vil ég, skýra frá, að flokksmenn mínir hafa sömu afstöðu í þessu efni.

Það, sem ætlazt er til í frv., að ríkissjóður leggi fram, eru 100 þús. kr., og má segja, að það sé það helzta pósitíva í þá átt að lækka vexti landbúnaðarins, sem kemur að gagni strax. Og vitanlega eru bændur þannig settir nú vegna hins lága afurðaverðs, að þeim veitir ekki af slíkri hjálp. Ekki batnar ástandið, ef menn hætta að neyta ýmsra landbúnaðarvara innanlands, eins og nú virðist unnið að. Það er ekki víst, að það komi í ljós strax, en það hlýtur þó að hafa mjög víðtækar afleiðingar ef svo stendur lengi. Ef t. d. sjálfstæðismenn hætta alveg að kaupa kjöt og mjólk, eins og þeir virðast vilja gera hér í Rvík. a. m. k. hvað mjólkina snertir, þá er ekki sýnilegt annað en það komi til kasta Alþingis að bæta bændum skaðann að einhverju leyti, því ekki lifa þeir lengi á því að hella mjólkinni niður eða nota hana eingöngu til heimilisþarfa.

Ég er ekki tilbúinn að koma með brtt. ennþá, en ég álít, að það þurfi að athuga 12. gr. rækilega, til þess að það komi skýrt fram, að það er vaxtalækkun, sem við er átt, en ekki einungis gjald það, sem ræðir um í 19. gr. ræktunarsjóðslaganna. Svo er þetta með 7. gr.; það getur verið vafasamt. eins og hv. 2. þm. Rang. sagði, að breyta til með flokk, sem er í gangi. Það er spursmál, hvort þeir menn, sem hafa keypt bréfin, þurfa að þola það. hér er um að ræða að lengja lánstímann um 7–8 ár, og það þjóðir, að útdrátturinn raskast að einhverju leyti, nema ríkissjóður og ræktunarsjóðurinn sjái um, að fé sé lagt fram aukreitis til þess að standast útdráttinn á réttum tíma. En ég er hræddur um, ef byrjað er á þessu í miðjum flokki, að það geri söluna óvissa. Hitt ætti að mega, að byrja á nýjum flokki.

Annars má búast við, að það verði tregari sala á bréfum jarðræktarsjóðs, ef lánstíminn verður lengdur upp í 30 ár. Það munar talsverðu, hvort menn fá peninga sína aftur eftir 25 ár eða ekki fyrr en eftir 35 ár, og það getur haft nokkur áhrif á vilja manna til þess að kaupa bréfin sama verði og áður. vaxtalækkunin dregur vitanlega einnig úr því, að menn vilji kaupa bréfin. Úr þessu er ofurlítið bætt með 14. gr.; hún á að örva sölu bréfanna. En ég er hræddur um, að sú örvun vegi ekki á móti því, ef mönnum þykir yfirleitt óaðgengilegt að eiga fé sitt í bréfum ræktunarsjóðs.