16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Landbn. hefir flutt 4 brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 148. — 1. brtt. er um það, að um leið og ræktunarsjóður tekur við þeim hluta af viðlagasjóði, sem er fram yfir það, sem veðdeild Búnaðarbankans á, fari fram mat á sjóðnum, og ráðh. ákveði um tilhögun matsins, að fengnum till. bankastjórnar Búnaðarbankans. Það er vitanlegt, að skuldir þær, sem viðlagasjóður á úti, eru margar hverjar óvissar, og líklegt, að sumar þeirra falli niður með öllu. Er því ekki sanngjarnt að afhenda bankanum þær með nafnverði og láta þær koma fram síðar sem tap bankans. Þess vegna er þessi till. fram borin.

2. brtt. n. er umorðun á 7. gr. frv. Sú grein er um það, eins og menn sjá, að innlausn vaxtabréfa hvers flokks skuli lokið 35 árum eftir að flokknum var lokað, í stað þess, sem stendur í gildandi l., 35 árum eftir að flokkur var opnaður. N. þykir þetta nokkuð óákveðið, og auk þess nægir þetta ákvæði ekki til að fullnægja ákvæðum 10. gr., sem lengir lánstíma á tveimur tegundum ræktunarsjóðslána um 10 ár, en þetta ákvæði 7. gr. lengir frestinn að því er bréfin snertir í hæsta lagi um 8 ár, því að flokki þarf að vera lokað á árum eftir að hann var opnaður. N. þykir því réttara að lengja frestinn beinlínis um 10 ár og leggur því til, að í staðinn fyrir „35 árum“ síðast í 3. gr. l. komi: 45 árum.

Þá er 3. brtt. n., sem segir, að c-liður 10. gr. skuli falla niður, en með þessum lið var gefin heimild til þess að breyta eldri lánum í Ræktunarsjóði í sama horf og ætlazt er til, að verði í framtíðinni samkv. þessu frv.

Ástæðan til, að n. leggur til að fella þennan lið niður, er í fyrsta lagi sú, að þetta yrði nokkuð erfitt í framkvæmdinni. Það þyrfti nýja útreikninga á árgjöldum allra þeirra eldri lána, sem ákveðið yrði nú að láta koma undir þetta, og í annan stað telur n., að á þessum ákvæðum e-liðs sé ekki svo brýn þörf sökum þess, að nú þegar er til í l. — nfl. l. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, frá 19. júní 1933 — heimild til þess að veita greiðslufest á afborgunum á föstum lánum um 5 ár. Það mundi verða hentugra í allri framkvæmd, jafnvel þó að til þess þyrfti að taka að framlengja þennan greiðslufest, heldur en að fara að reikna út í hverju tilfelli ný árgjöld af eldri lánum. N. lítur svo á, að þetta geti ekki verið óhagkvæmara, a. m. k. nú í bráðina, fyrir þá, sem skulda eldri lán, en allmiklu hagkvæmara fyrir bankann að því er til starfsins kemur.

Þá er 4. brtt. Er hún aðeins leiðrétting og þarf ekki skýringar við.

Um þær brtt., sem fram hafa komið við frv. frá einstökum hv. þdm., skal ég ekki ræða að svo vöxnu máli.