19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Það hefir raunar við 2. umr. verið að nokkru leyti viðurkennt, að 1. og 2. kafli þessara laga hefði ekki mikla þýðingu. Menn hafa verið sammála um, að ákvæði 3. gr., um stofnun nýs veðdeildarflokks, væri sýnd veiði, en ekki gefin. Eins er um mörg ákvæði 1. og 2. kafla. Þó játa ég, ef brtt. hv. 2. þm. Rang. nær fram að ganga, að þá er þar (á þskj. 154) um merkilegt nýmæli að ræða, og er líklegt, að það nýmæli gæti komið að miklum notum.

Í 2. kafla frv. þykir mér vanta skýrt ákvæði um það, að vextir skuli lækka úr 6% niður í 5%. Ég hefi því flutt brtt. um það á þskj. 132, að í stað .,fram úr 6%“ komi fram úr 5%. — Ég þykist vita, að það hafi vakað fyrir þeim, sem fluttu frv., að þetta yrði gert, en það er því miður ekki sagt í frv.

Það mun vera sameiginlegt álit manna, að 3. kafli (um vaxtatillag af hálfu ríkissjóðs af þeim fasteignaveðslánum banda, þar sem vextirnir fara fram yfir 5%) skipti mestu máli í frv.

Í lögum frá 1933–1934 var vaxtatillagið ákveðið 1/2%, svo að bændur þyrftu ekki að greiða umfram 4/2%. Afkoma landbúnaðarins hefir ekki batnað síðan þau lög voru sett, svo að það er a. m. k. jafnþungt að greiða vexti og þá var. Og síðan lögin um kreppulánasjóð komu til framkvæmdar, er orðið ennþá meira áberandi, hvað vextir eru þungir af fasteignaveðslánum, samanborið við kreppusjóðslán. Ég hefi því flutt brtt.þskj. 123), að í stað 5% komi 4% og í staðinn fyrir 1% komi allt að 2%.

Það er vissulega svo ástatt um landbúnaðinn, að hann getur ekki staðið undir hærri vöxtum en 4%–41/2%. Og þó að hagur ríkissjóðs sé væntanlega ekki ríflegur, eins og allar horfur eru nú, þá ber samt á það að lita, að það verður að ganga fyrir flestu öðru að létta undir með þessum atvinnuvegi, því að annars vofir yfir, að bændurnir flosni upp af jörðum sínum og leiti atvinnulausir í kaupstaðina. En með tilliti til þess, að þungt er fyrir ríkissjóði, þá er hér bara um heimild að ræða. Og ríkissjóður myndi þá ekki þurfa að taka alveg til heimildarinnar, ef landbúnaðurinn rétti við.

Um brtt. landbn. vil ég taka það fram, að frá mínu sjónarmiði er hún til mikilla bóta. Það er mikill kostur, að horfið hefir verið að því að lengja lánstímann á þeim bréfum, sem þegar eru í gangi, því að það hefði getað haft alvarlegar afleiðingar, ef löggjafarvaldið, eftir að flokkur var opnaður, gerði þar breyt. á. Gæti það bæði haft slæm áhrif á sölu jarðræktarbréfa og íslenzkra verðbréfa yfirleitt.