19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Pétur Magnússon:

Ég verð að játa það, að ég undraðist nokkuð, hverjar undirtektir brtt. mínar fengu hjá hæstv. forsrh. Hann talar um, að ekki verði útkljáð á þessu þingi, hvaða braut skuli halda í þessu efni, um eignarrétt jarðanna, hvort þær skuli vera í eigu ríkis eða einstaklinga.

Ég hefi varla heyrt meiri fjarstæðu en það, að í frv. um óðalsrétt væri horfið frá einstaklingseign. Það er svo fjarri, að svo sé, að heldur er þvert á móti verið að tryggja eignarrétt einstaklingsins, þó heimilað sé að leggja vissar kvaðir á þann eignarrétt. Það, sem hv. þdm. verða að ráða við sig, er það eitt, hvort þeir vilja styðja að því, að jarðir komist í sjálfsábúð. Ef hv. þdm. þykir heppilegra, að jarðirnar séu í sjálfsábúð, þá munu þeir óhræddir og óhikandi greiða till. mínum atkv., því hér er ekki um að ræða að binda ríkissjóði neina bagga, heldur er hér verið á sérstakan hátt að mynda sjóð, sem á að nota til að gera mönnum kleift að reisa bú á eigin jörð. Það þarf því ekki að tala um það í þessu sambandi, að afla þurfi ríkissjóði sérstakra tekna til að standast þessi útgjöld, enda beindi hæstv. forsrh. því ekki til mín, heldur til hv. 10. landsk. Ég vil svo endurtaka það, að ég vænti þess, að þeir hv. þm., sem telja sjálfábúð á jörðum heppilegri en leiguábúð, greiði brtt. mínum atkv. sitt.