19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Pétur Magnússon:

Ég er alveg undrandi á hæstv. forsrh. að halda fram annari eins endemisvitleysu og þeirri, að með óðalsréttarfrv. sé horfið frá eignarrétti einstaklinga á jörðunum. Eins og ég gat um áður, er það höfuðatriði þess frv., að jarðirnar haldist í sjálfsábúð að eigandi og ábúandi verði hinn sami. Hæstv. ráðh. má ekki láta það villa sig, þó nokkrar kvaðir eða heift séu lögð á eignarréttinn. Það er alls ekki einstætt fyrirbrigði, að eignarrétturinn sé takmarkaður, þarf ekki annað en að minna á t. d. þær hömlur, sem iðulega eru lagðar á meðferð hlutabréfa í hlutafélögum, bæði um sölu og veðsetningu. (Forsrh.: Óðalsrétturinn er ekki eignarréttur, það vita allir). Það þýðir ekki að halda slíkri firru fram. Það mætti a. m. k. ekki minna vera en að ráðh. benti á einhver ákvæði frv. til styrktar þessari staðhæfingu sinni. Að öðrum kosti tekur enginn mark á henni. Frv. er komið fram í því skyni, að jarðirnar haldist í sjálfsábúð og í eign einstaklingsins, og er borið fram gegn þeirri stefnu, sem flokkur ráðh. hefir horfið að á undanförnum árum — að koma öllum jörðum í ríkiseign og leiguábúð.