26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

Afgreiðsla þingmála

Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. form. landbn. sagði, vil ég taka það fram, að það hefir verið sjálfsögð regla hjá n. hér í þinginu að afgreiða mál eftir þeirri röð, sem þau koma í til n., að því einu undanskildu, að þegar þarf að afla upplýsinga um mál, sem ekki eru alveg við hendina, þá geti það orðið til þess að raska röð málanna. En út af því, sem hv. þm. sagði um það, að n. mundi afgr. málin eftir því sem henni þætti nauðsyn í, þá vil ég bara minna hv. þm. á það, að það er misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að hv. landbn. hafi eitthvert vald til þess að ráða því, hvort mál fái afgreiðslu í þingi eða ekki. Ég held, að það væri bezt fyrir hann að athuga svolítið betur sinn verkahring, áður en hann kemur með slíka speki. Það er engum vafa undirorpið, að réttur þeirra manna, sem bera fram mál, er sá, að málin fái afgreiðslu í n., sem þingið ræður að sjálfsögðu. hvort þessi mál verða svo seinna samþ., felld eða hvort þeim verður frestað. Það er því sjálfsögð réttlætiskrafa mín og annara hv. þm., að hæstv. forseti sjái um, að n. misbeiti ekki aðstöðu sinni til þess að níðast á málum einstakra manna.