14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

76. mál, flutningur á kartöflum

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil fara um þetta frv. nokkrum orðum, vegna þess að það fór umræðulaust til 2. umr. — Frv. það, sem hér liggur fyrir, er tilraun til þess að tryggja innlendum kartöfluframleiðendum markað þann, sem til er í landinn, og að ýta undir það, að framleiðslan aukist.

Það hefir vitanlega mest háð aukinni innlendri framleiðslu, hve miklir örðugleikar hafa verið á því að fá markað fyrir vöruna, þó að þörfin væri nóg fyrir hana í landinu, og mikil sala á útlendum kartöflum á sama tíma. Það er svo merkilegt, að þó að íslenzkar kartöflur hafi verið seldar með sama verði og erlendir kartöflur, þá hefir samt aðstaðan fyrir hinar erlendu kartöflur verið svo góð, að innlendir framleiðendur eru í þann veginn að leggja árar í bát. Þeir, sem verzla með kartöflur í aðalmarkaðsstaðnum hér í Rvík, hafa átt kost á því að fá jafngóðar kartöflur seldar af „lager“ frá innflytjendum hér í bænum, og því ekki þurft að byrgja sig upp með kartöflur. En þessir innflytjendur frá útlöndum hafa ekki viljað byrgja sig upp nema eftir hendinni í samræmi við eftirspurnina á hverjum tíma. En það hefir verið svo með innlendu söluna, að hún hefir öll farið fram á sama tíma, en það er að haustinu eftir uppskeruna. Hér hefir enginn geymslustaður verið, sem almenningur hefir átt kost á, og hefir því orðið að bjóða alla framleiðsluna til sölu í einn, en af ástæðum, sem ég hefi nefnt áður, þykir betra að fá kartöflur eftir hendinni. Þetta hefir orðið til þess, að margir þeir, sem lagt hafa fyrir sig að framleiða kartöflur til sölu á innlendum markaði, hafa orðið að hætta við það, og má segja, að brauðið hafi þannig verið tekið frá landsins eigin börnum. Hvað eftir annað hefir verið borið fram frv. til þess að reyna að bæta úr þessu, t. d. með því að banna innflutning á erlendum kartöflum, en það hefir aldrei náð að komast í gegnum þingið.

Landbn. hefir haft þetta mál til meðferðar bæði á síðasta þingi og núna á þessu þingi, og hefir haft til athugunar ýmsar till. í þá átt að tryggja innlendri framleiðslu markaðinn hér á landi. Að lokum tókst svo samkomulag um að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það má gera ráð fyrir því, að nú sé hægra en áður að takmarka innflutning á erlendum kartöflum, vegna þeirra gjaldeyriserfiðleika, sem nú eru. Eins og kunnugt er, hefir verið sett n. til þess að takmarka innflutning á vörum, sem ónauðsynlegar eru taldar, og er ekki hægt að telja þá vöru nauðsynlega til innflutnings, sem framleiða má í landinu sjálfu, og þar sem vitanlegt er, að margir ganga atvinnulausir. Reynsla er fengin fyrir því, að kartöflur má rækta víðsvegar um landið, og má telja, að það sé orðin nokkuð viss og örugg atvinnugrein. Það er því argasti skrælingjaháttur að stuðla ekki að því, að þessi framleiðsla fari fram í landinn sjálfu, því það getur veitt mönnum atvinnu og sparað gjaldeyri.

Þó að búast megi við því, að innflutningsnefndin sé vakandi í þessum efnum, þá þótti samt vissara að gefa landbrh. leyfi til að herða á henni. 1. gr. frv. fjallar um þetta. Ýmsir munu vera smeykir um það, að innflutningsbann geti orðið til þess, að kartöflur hækki úr hófi fram í verði, og raddir heyrðust því um það í n. að setja hámarksverð, eða gera einhverjar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja þetta. En eins og ég sagði áðan, þá koma innlendu kartöflurnar á markaðinn svo að segja á sama tíma, og er framboðið þá svo mikið, að það ætti að geta orðið til þess að halda verðinu niðri. Í 1. gr. er ákvæði um það, að ekki skuli gengið svo langt í því að banna innflutning á kartöflum, að það geti orðið til þess að hækka verðið á kartöflum. Í 1. gr. segir svo: „Þó skal þess gætt, að ganga ekki svo langt í takmörkun innflutnings á erlendum kartöflum, að hún leiði til verulegrar verðhækkunar á þeim til neyzlu í landinu, miðað við verðlag undanfarinna þriggja ára á sama tíma, og með hliðsjón af erlendu markaðsverði.“

Þetta ákvæði á að koma í staðinn fyrir heimild um að setja hámarksverð.

Ég vil minna á síðari málsgr. 1. gr., en þar segir: „Við veitingu innflutningsleyfa á kartöflum skal, eftir því sem við verður komið og fært þykir, taka tillit til þess, hvort umsækjandi hefir verzlað með innlendar kartöflur og í hve stórum stíl, og mælir það með leyfisveitingu, að öðru jöfnu, ef umsækjandi hefir lagt sig fram um sölu á innlendum kartöflum.“ Þetta er gert til þess, að þeir menn, sem hafa hagnað af og löngun til þess að flytja inn kartöflur, hafi hvöt til þess að kaupa innlendar kartöflur, því þeir fá þá að flytja þess meira inn af kartöflum, og á þetta því að vera til þess að greiða fyrir sölu á innlendum kartöflum.

2. gr. frv. er um það, að landbúnaðarráðh. er heimilt að fela Búnaðarfélagi Íslands að safna skýrslum í tæka tíð um það kartöflumagn, er framleiðendur óska að selja af ársuppskeru hverri, svo og um það, á hvaða tíma kartöflurnar geta verið tilbúnar til flutnings á markaðsstaði.

Þá kem ég að 3. gr. Það kom til tals innan n., að ef til vill væri rétt að fyrirskipa mat á innlendum kartöflum. Þegar ekki er í annað hús að venda með kaup á kartöflum, þá eiga neytendur auðvitað kröfu á því, að vara sú, sem á boðstólum er, sé góð og vönduð. En stundum hefir þótt vera misbrestur á slíku. Það var þó ekki horfið að því ráði að fyrirskipa skoðun á kartöflum heldur voru sett ákvæði um það, að skylda framleiðendur til þess að hafa á þeim merki, svo að þeir, sem selja kartöflur, sjá fljótt, hvaðan varan er bezt, og getur þetta því orðið til þess, að samkeppni komist á um að vanda vöruna sem bezt.

Þá er í 4. gr. ákvæði um það, að skylda Skipaútgerð ríkisins til þess að flytja innlendar kartöflur milli hafna fyrir hálft farmgjald, miðað við farmgjald af sambærilegum þungavörum. Flutningsgjaldið eitt út af fyrir sig er nægilegt til þess, að það borgar sig ekki að framleiða kartöflur, þó að það borgi sig vel að öðru leyti. En á þeim tíma, sem kartöflurnar eru aðallega fluttar, hafa skipin ekki mikið að flytja, og ætti því að vera hægt að koma því svo fyrir, að skipin flyttu kartöflurnar fyrir hálft farmgjald, svo að hægt sé að gera þeim, sem búa langt frá markaðinum, kleift að nota hinn innlenda markað. Ég geri ráð fyrir, að ef farmgjaldið væri helmingi lægra, þá myndi það láta nærri því, sem það kostar að flytja kartöflurnar hingað úr næstu héruðum, og gæti þetta því orðið til þess að skapa jafnrétti milli héraðanna.

Ég hefði að ýmsu leyti kosið, að tekið hefði verið fastari tökum á þessu máli og komið hefði verið á ríkiseinkasölu á innfluttum kartöflum. En eins og ég sagði áður, hefir n. orðið sammála um að afgr. málið á þennan hátt og gera tilraun um það, hvort ekki megi á þennan hátt fá fullkomið öryggi í því að tryggja innlendri framleiðslu hinn innlenda markað, og jafnframt auka framleiðsluna eftir því, sem þörf er fyrir í landinu sjálfu.