14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

76. mál, flutningur á kartöflum

Pétur Ottesen:

Við 1. umr. þessa máls var ekki talað fyrir frv. af hálfu landbn. En vegna þess ber ég ekki fram nú við 2. umr. þær brtt., sem ég hefi í huga að gera. Ég vildi fyrst heyra almennar ástæður landbn. áður en ég bæri fram breytingar, en grg. frv. gerir ráð fyrir, að þær verði aðallega bornar fram í framsögu. Það, sem mér þykir sérstaklega athyglisvert við frv., er, að það gengur allt of skammt.

Í 1. gr. frv. hefði átt að taka með öllu fyrir innflutning á kartöflum á þeim tímum, sem nóg er til af þeim í landinu, og er sjálfsagt að styðja að aukinni ræktun sem mest. En það kemur ekki til mála að fela gjaldeyrisnefnd eftirlit með innflutningnum, því það er algerlega óforsvaranlegt að flytja nokkuð inn af kartöflum, meðan nóg er til af þeim í landinu. En þó frv. geri ráð fyrir nokkrum takmörkunum á innflutningi, finnst mér þar allt of linlega til verks gengið, og mun ég því flytja brtt. í þá átt, að banna algerlega innflutning á vissum tímum. Samkv. 2. gr. er gert ráð fyrir, að safnað verði ábyggilegum skýrslum um uppskeru- og sölumagn kartaflna í landinu, og ætti því að vera hægt að gera sér fulla grein fyrir, hvað þær endast lengi, og ákveða út frá því, hve lengi innflutningsbannið þurfi að standa í hvert sinn.

Þá er annað atriði í l. gr. frv., sem ég get ekki fellt mig við, og ég bið frsm. landbn. að taka vel eftir, því það virðist brjóta í bága við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á annari innlendri framleiðslu, með kjöt- og mjólkursölulögunum. Í fyrstu gr. frv. er tekið fram, að ekki megi gera ráðstafanir, sem leiði til verulegrar verðhækkunar, og að leggja skuli til grundvallar verð á erlendum kartöflum. Nú mun almennt álitið, að leggja beri til grundvallar að fá framleiðslukostnaðinn uppborinn, hér virðist vera dregið úr því, og ákvæðin ganga því í bága við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á öðrum sviðum. Ég vil hinsvegar ekki styðja að því, að þann tíma, sem innflutningsbann er á kartöflum, sé verðið spennt óeðlilega hátt upp, en að þær séu aðeins seldar því verði, sem nauðsynlegt er til þess að framleiðslan beri sig. Enda er það fyrsta skilyrðið til þess að ná því takmarki, að engar kartöflur þurfi að flytja inn í landið, að atvinnuvegirnir beri sig. Til þess er engin önnur leið. Ég vildi gjarnan setja hámarksverð á kartöflurnar, sem miðað væri við framleiðsluverð. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um málið nú.