14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

76. mál, flutningur á kartöflum

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég hélt nú sannast að segja, að þó gjaldeyrisvandræði séu, þá væru innflutningshöftin orðin svo mikil, að ekki væri við bætandi. Og mér þykir það einkennilegt, að alveg skuli vanta undirstöðuna undir þetta frv., sem sé að sýna fram á, að landsmenn eigi erfitt með að selja sína framleiðslu. En mér er ekki kunnugt um, að svo sé, heldur þvert á móti er sagt, að allar íslenzkar kartöflur seljist árlega.

Ég er ekki hissa á því, þó hér komi fram frv. um innflutningshöft. En mig furðar á hinu, að menn skuli ekki jafnframt hafa athugað, að allt of lítið er framleitt í landinu, og því verður ekki komizt hjá að flytja inn, enda almennt talið, að minna sé neytt af kartöflum en heilsusamlegt væri, því er merkilegt, að svona till. skuli koma fram, sem aðeins leiðir til þess, að verðið hækkar og dregur úr neyzlu, og ekki sízt, ef ríkari ákvæði um innflutninginn komast inn í frv. Ég veit ekki, hvort það má teljast fært að hamla flutningi á nauðsynjavörum til landsins og hækka þannig verið. Á þessu máli eru tvær hliðar, og hin er sú, sem ekki er hægt að ganga framhjá, — hvað lengi getur landsfólkið keypt vöruna, ef hún hækkar stöðugt í verði? Ég viðurkenni, að það þurfi að lyfta undir framleiðsluna, en ekki með því að spenna verðið allt of hátt, heldur með stuðningi samkv. 4. gr., að flytja fyrir 1/2 gjald milli hafna og veita styrk til landflutninga, og jafnvel ef það þætti ekki fullnægjandi, þá væri betra að setja innflutningsgjald á aðfluttar kartöflur en að takamarka innflutninginn. Ég veit, að verndartollar eru neyðarúrræði. En þar veit maður þó, að hverju maður gengur. En ef sköpuð er mjög mikil eftirspurn eftir vöru með því að hamla því, að hún sé til á markaðinum, þá eru engin takmörk fyrir því, hve verðið getur orðið hátt. vitanlega er það algerð fjarstæða að segja, að það sé skrælingjaháttur að flytja inn voru, sem er svo dýrt að framleiða, að það væri skrælingjaháttur að ætla að pína landsfólkið út í þá braut með því að banna því að fá vöruna annarsstaðar. Og þegar um er að ræða neyzluvöru, sem menn mega ekki án vera, þá er það mestur skrælingjahátturinn að banna mönnum að afla sér hennar með skaplegum kjörum.

Fyrir mitt leyti mundi ég geta gengið inn á þau ákvæði frv., sem hníga í þá átt að gera mönnum léttara fyrir með framleiðslu á kartöflum með því að lækka flutningsgjald fyrir þær með skipum ríkissjóðs á milli innlendra hafna, og jafnvel kannske með litlu innflutningsgjaldi á kartöflum. En að öðru leyti er ég því algerlega ósamþykkur, að nokkrar aðrar hömlur verði lagðar á innflutning kartaflna en þær, sem leiðir af gjaldeyrisráðstöfunum. Ef farið verður að takmarka það mjög, hverjir megi flytja þessa vöru inn, þegar annars innflutningur hennar er leyfður, þá er það alveg gefinn hlutur, að slíkt mundi leiða til einokunar með vöruna. Við höfum fyrir okkur dæmi um þetta; vörur, sem að vísu má flytja inn, en innflutningshömlur eru á. Þetta eru klæðnaðarvörur. Innflutningshömlur voru settar á þær til þess að styðja innlenda framleiðslu þeirra. En afleiðingin er, að kaupendur þessara innfluttu vara verða að kaupa þær 100% hærra verði fyrir bragðið en þeir annars hefðu þurft. Þetta nær ekki nokkurri átt. Sama mundi eiga sér stað, ef settar væru hömlur á innflutning kartaflna. Þá mundu fáir fá leyfi til að verzla með þær; þær mundu verða óhæfilega dýrar og menn mundu neyta minna af þeim, og væri slíkt mikill skaði, þar sem kartöflur eru mjög holl fæðutegund.

Ég mun að sjálfsögðu verða á móti framgangi þessa frv., þó ég hinsvegar vildi taka vingjarnlega till. þess, sem hníga í þá átt að létta mönnum framleiðslu þessarar vöru á annan hátt en með því að spenna verðið upp.