14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

76. mál, flutningur á kartöflum

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er svona tiltölulega hógvært af þessum svokölluðu skipulagstilraunum, sem Alþ. er nú að gera með framleiðsluvörur landsmanna. En það stendur dálítið sérstaklega á um þessa vörutegund. Ég man eftir skipulagslögum um fiskverzlun landsmanna, kjötverzlun og mjólkurverzlun. Aðaleinkennið á þeim varningi er sá, að þar þykir markaðurinn of þröngur, þ. e. a. s. að framleitt er meira af þessum vörutegundum heldur en góður markaður er fyrir, og tilraunirnar, sem með þessar vörutegundir á að gera, ganga í þá átt að reyna að finna markaði, fyrst og fremst með hæfilegu verði; m. ö. o., að yfirboð vörunnar, hvort sem það er á innanlands- eða utanlandsmarkaði, komi því ekki til leiðar, að verðlagið komist niður úr öllu hófi. Þetta hefir tekizt misjafnlega, og er það eðlilegt, vegna þess að þessi löggjöf stefnir að því fyrst og fremst að halda uppi verðinu á vörunni, sem ekki er til markaður fyrir, og á þann hátt komið í veg fyrir, að framleiðslan minnki, svo að hún samsvari markaðinum. Með þessari svokölluðu skipulagslöggjöf er reynt að halda uppi óeðlilega háu verðlagi á vörunni, með þeim afleiðingum, sem ekki er séð fyrir endann á enn, en smátt og smátt eru að koma í ljós fyrir landsfólkinu. Í því máli, sem hér er um að ræða, er nokkru öðru máli að gegna. Hér þykir framleiðslan á einni vörutegund of lítil og þess vegna á að gera tilraun með að skipuleggja meðferð hennar líka, m. ö. o., að á bak við þessa löggjöf liggur sú hugsun, að með skipulagningu megi takast hvorttveggja, að vernda framleiðendur, þegar um of mikla framleiðslu er að ræða, með því að halda uppi verðinu á vörunni, og hitt líka, að þegar um of litla framleiðslu er að ræða, megi vernda neytendur fyrir of háu verðlagi. Þetta á allt saman að gera með löggjöf, og landsmenn eru ekki búnir að læra það enn, að þetta er óframkvæmanlegt, því það opinbera getur ekki með góðum árangri séð til, að haldið sé ákveðinn verðlagi á öllum vörutegundum, sem seldar eru manna á milli í landinu, eins og það getur ekki heldur ráðið því, hver framleiðslukostnaðurinn er á vörum yfirleitt.

En hér er um að ræða vörutegund, sem ekki er nógu mikið framleitt af í landinu handa landsmönnum einum saman.

Það mun vera tilgangurinn, að þetta frv. verði til að auka framleiðsluna af jarðeplum, ef að lögum verður. Það má því líklega segja, að það sé eina frv. af öllum þessum skipulagsfrv., sem stefnir í þá átt að vernda neytendurna, nefnilega auka framleiðsluna og þar með lækka verðið á þessari vörutegund, sem hér um ræðir.

Fyrir framleiðendurna, hvern einstakan þeirra, held ég að sé nú, ef takmarkaður er verulega innflutningur á kartöflum, það bezta ástand, sem verið getur. Framboð vörunnar er ekki svo mikið sem þarf að vera til þess að halda verðinu hæfilegu. Eina leiðin til að halda verðinu niðri er sú, að leyfa innflutning frá útlöndum. En nú á með þessari löggjöf, að því er mér skilst, að takmarka innflutninginn til þess að innlenda framleiðslan sé ein um framboðið á markaðinum, og þá kemur fram nýtt viðhorf í þessu máli.

Eins og sakir standa er framboðið á kartöflumarkaðinum tvennskonar, framleiðsla landsmanna sjálfra og það, sem flutt er inn frá útlöndum. Og fleira er einkennilegt við kartöfluverzlunina í landinu nú: Eitt aðaleinkenni hennar held ég, að sé það, að menn taka innlendu framleiðsluna fram yfir þá erlendu, vilja íslenzku kartöflurnar heldur. Það kemur m. a. fram í því, að menn borga miklu hærra verð fyrir innlendu kartöflurnar heldur en þeir eiga kost á að fá þær útlendu fyrir.

Annað atriði er líka, sem mér finnst, að hv. landbn. og þd. þurfi að gera sér vel ljóst, og leiðir það af því, að innlenda framleiðslan er miklu minni heldur en neyzluþörfin innanlands. Og það er, að eins og sakir standa er mjög algengt, að neytendurnir taki að sér hlutverk, sem framleiðendurnir vilja vera lausir við og við höfum ekki ennþá aðra til að taka að sér. Það er að geyma vöruna þangað til þarf að neyta hennar. Íslenzka kartöfluframleiðslan byggist mjög á því, að bæjabúar birgja sig upp til lengri eða skemmri tíma, sumir jafnvel fyrir næstum því allt árið. Neytendur hér taka þannig að sér það verk, sem spekúlantar og stórkaupmenn hafn með höndum erlendis. Þeir leggja fram kapitalið, sem þarf til þess að losa bændur við vöruna á haustin og geyma hana þangað til hún er notuð smátt og smátt, taka á sig áhættuna vegna skemmda og kostnaðinn við geymsluna. Ég þekki fjölda heimila hér í bænum, sem gera aðalkartöflukaup sín að haustinu. Að menn vilja taka á sig áhættuna og kostnaðinn, sem af því leiðir, byggist á því tvennu, að íslenzku kartöflurnar falla betur í smekk manna hér og að framleiðslan er of lítil. Íslenzku kartöflurnar eru ekki á boðstólum allan ársins hring; þær hverfa af markaðinum fljótlega úr nýárinu, og heldur en að sætta sig við að vera án þeirra kosta margir til þess að birgja sig upp. Þetta hefir mikið að segja fyrir framleiðendurna. En þegar að því kemur, að innlenda framleiðslan nægir fyrir neyzluþörfina í landinu, þá er engin hvöt til þess lengur fyrir neytendurna að birgja sig upp, því þá hafa þeir aðgang að því að kaupa þessa vöru allan ársins hring. Þar með fellur yfir á einhvern annan aðila þetta stóra hlutverk, sem ég get ekki séð, að neinn sé líklegur til að taka að sér í augnablikinu. Til þess þarf bæði fjármagn og undirbúning. Í þessu felst það, sem oft hefir verið talað um hér á Alþingi, að ríkið þyrfti að stuðla að því að koma upp kartöflugeymslu. Á slíkum ráðstöfunum er ekki þörf meðan neytendurnir taka að sér að geyma kartöflurnar.

Á því, að menn vilja heldur innlendu kartöflurnar, byggist það einnig, að innlendu framleiðendurnir fá hærra verð fyrir sína framleiðslu heldur en borga þarf fyrir útlendar kartöflur á íslenzkum markaði. Þetta er ákaflega stórt atriði í þessu máli, hér er allt öðru máli að gegna heldur en þegar um er að ræða sölu t. d. kjöts og mjólkur á innlendum markaði, sem meiri hluta þings hefir þótt ástæða til að skipta sér af með allróttækum ráðstöfunum. Ég heyrði ekki á ræðu hv. frsm. landbn., að þeim, sem að frv. standa, væri þetta atriði ljóst. En ég álít, að menn verði sérstaklega að gera sér ljósa grein fyrir því, að eins og sakir standa er fyrir kartöfluframleiðendur í landinu það bezta ástand, sem fengið verður, og hætt er við, að það breytist þeim til óþurftar, ef kartöfluframleiðslan eykst til verulegra muna, jafnvel þó hún aukist ekki svo, að hún fullnægi neyzluþörfinni. Hér er því verið að hugsa um neytendur, þó frv. virðist eiga að vera til að vernda framleiðendur, eins og látið hefir verið í veðri vaka, að hin skipulagsfrv. svokölluðu ættu að vera vegna neytendanna; hér skýtur því nokkuð skökku við. Ef einhver breyt. verður vegna þessarar löggjafar, þá verður hún önnur en virðist vera ætlazt til og sest á yfirborðinu, þegar frv. er lesið. Því það næst varla hvorttveggja í senn með sömu ráðstöfunum, að framleiðslan aukist og verðið hækki eða haldist í svipuðu horfi og nú er. Mig skyldi ekki undra, þó sá yrði fljótlega árangur þessarar löggjafar, að kartöfluframleiðendum þætti lakar af stað farið heldur en heima setið, að láta ekki eðlileg viðskiptalögmál og tilfinningu framleiðendanna sjálfra ráða hvernig fer á hverjum tíma um framleiðslu þessarar vörutegundar, sem er þess eðlis, að auka má framleiðslu hennar mjög ört og sömuleiðis draga úr henni eftir því, hvernig hverjum framleiðenda lízt á markaðshorfurnar.