14.03.1935
Neðri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

76. mál, flutningur á kartöflum

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það þarf ekki að vera neitt ósamræmi í því, þó haldið hafi verið fram, að hvorttveggja geti leitt af þessu frv., verðhækkun um stundarsakir, ef takmarka á innflutninginn án þess að framleiðslan í landinu aukist að sama skapi, og svo hitt, þegar frv. hefir náð tilgangi sínum, að þetta snúist við til hagsbóta fyrir neytendurna. Það er ekki rétt af hv. frsm. landbn. að láta líta svo út, að þessi rök stangist, þau geta hvortveggja haft við fulla skynsemi að styðjast.

Hv. frsm. virtist viðurkenna það stóra atriði, að kartöfluverzluninni er hagað þannig nú, að neytendurnir sjá framleiðendum fyrir kapítali og taka á sig áhættuna við að geyma vöruna með því birgja sig upp að haustinu. En ef hv. frsm. telur þetta einskis virði og engu máli skipta, þá fyndist mér, að hann ætti að bera fyrir sig einhverjar upplýsingar, helzt einhverjar tölur, sem sýna, hvernig þessu er háttað eins og er. Enda er slíkt frv. sem þetta ekki frambærilegt, nema einhverjar slíkar upplýsingar um málið liggi fyrir. Hvað er kartöfluframleiðslan mikil í landinu nú, og hvað kemur mikið af henni á markaðinn? Hvað mikið af því, sem framleiðendur þannig nota ekki til heimilisþarfa, kaupa neytendur til þess að geyma sem forða til ársins, og hvað mikið af því er selt í smásölu? — Einn af þeim, sem að frv. standa, sagði í ræðu sinni áðan, að innlenda framleiðslan væri yfirleitt ekki á boðstólum nema fram eftir haustinu. Og ég held, að það sé rétt, að hún hverfi af markaðinum a. m. k. fyrir nýár. Hvað þýðir það? Það er einmitt örugg sönnun fyrir því, að íslenzku framleiðsluna kaupa aðallega þeir, sem sjálfir geyma kartöflurnar heima hjá sér. Og ef svo er, að meginið af íslenzku framleiðslunni er keypt á uppskerutímanum og geymd þannig, hvað mikils virði er það fyrir framleiðendurna? Um þetta allt teldi ég nokkurs virði að fá upplýsingar.

Hv. frsm. sagði, að það ætti mjög langt í land, að innlenda framleiðslan fullnægði þörfinni innanlands. ég veit ekki, við hvað þetta hefir að styðjast; engar tölur hafa verið nefndar í því sambandi, nema að þær væru um 300 þús. kr., sem almenningur greiddi til útlanda fyrir kartöflur. Það hefir ekki verið upplýst, hvað mikið kartöflumagn hefir verið flutt inn fyrir þessa upphæð. En mér er nær að halda, að þar sem þessi vara er ekki vandframleidd í voru landi, þá geti, með hvatningu og aðstoð ríkisvaldsins, mjög bráðlega borið að því, að landsmenn fullnægi sjálfir neyzluþörfinni innanlands, og því er mjög hætt við því, að þau stóru hlunnindi, sem framleiðendurnir hafa nú, hverfi.

Það má enginn láta sér detta í hug, að neytendur fari að birgja sig upp af þessari vörutegund, þegar hún er höfð á boðstólum mikinn hluta árs. Nú eru kartöflurnar seldar mest á haustin, og þegar kemur fram undir nýár, eru íslenzkar kartöflur alls ekki til. Þetta hefir reynslan sýnt. Og það er svo stórt atriði, að landbn. verður að gera sér grein fyrir, hvers eðlis þessi framleiðsla er.

Ef framleiðslan eykst, eins og ég hefi lýst, þá hverfur þar með nauðsynin fyrir neytendur að birgja sig upp af þessari vöru fyrir árið. Og þegar framleiðslan þannig eykst, svo að hún selst ekki öll að uppskerunni lokinni, þá hlýtur að koma að því, eins og hv. frsm. lýsti, með þessu brölti ríkisvaldsins, að það verður að taka að sér að sjá fyrir geymslu á kartöflunum. Það tekur kannske líka að sér áhættuna af skemmdum vörunnar. Mér dettur ekki í hug að halda, að einstakir borgarar taki þetta hlutverk að sér, sem annarsstaðar í heimi er í höndum borgaranna, þegar yfir vofir bráðlega, að ríkið slær fæti undan frelsi þeirra í þessum efnum og setur upp geymslur eða kartöflukjallara. En þá verður ríkið líka að taka (áhættuna af kartöflugeymslunni og verzluninni á landinu. Og það getur tekizt misjafnlega. Með geymsluna hefir oft tekizt óheppilega, vegna sjúkdóma, sem herja okkar íslenzka kartöflustofn. Ég held, að það sé vafasöm ráðstöfun ríkisvaldsins að ætla að létta ábyrgð af neytendunum, en verða að tryggja framleiðendum eitthvert lágmarksverð fyrir vöruna, og taka sjálft að sér geymslu og áhættu, sem er undir svo mörgu komin, eins og t. d. veðurfari, sem ekki framleiðendur og jafnvel ekki Alþ. ræður yfir. En kannske kemur bráðum frv. um það, að stjórnin treysti sér til að sjá um veðurlag í landinu.